Hraunborgir og Annarsflokks æðadúnn hljóta fimm milljónir hvor úr Hönnunarsjóði
Fyrri úthlutun ársins hjá Hönnunarsjóði fór fram í Grósku þann 22. mars. 21 fjölbreytt verkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs hlutu styrki en 36 milljónir voru til úthlutunar.
Alls barst 121 umsókn um almenna styrki þar sem samtals var sótt um 370 milljónir og 21 umsókn um ferðastyrki. Framlag í Hönnunarsjóð hækkaði í 80 milljónir í fyrra og samhliða því var gerð sú breyting á úthlutunum að hámark styrkja var hækkað og ferðastyrkir hækkuðu upp í 150 þúsund krónur hver.
Að þessu sinni voru 36 milljónir til úthlutunar þar sem 3 hlutu Markaðs- og kynningarstyrk, 9 hlutu Verkefnastyrk og 9 hlutu Rannsóknar- og þróunarstyrk. Þá voru 11 verkefni sem hlutu samtals 13 ferðastyrki.
Hæstu styrkina, 5 milljónir hvor hljóta Studio Arnhildur Pálmadóttir, rannsóknar- og þróunarstyrk fyrir verkefnið Hraunborgir - Lavaforming, en meginviðfangsefni verkefnisins er að þróa byggingarefni úr hrauni sem uppfyllir þá byggingartæknilegu eiginleika sem gerðar eru kröfur til við gerð nútímahúsnæðis fyrir menn og dýr. Studio Erindrekar, hönnuðirnir Signý Jónsdóttir, Íris Indriðadóttir og Sigmundur Páll Freysteinsson, hlutu verkefnastyrk fyrir verkefnið Annarsflokks sem er hönnunar- og rannsóknarverkefni sem sýnir fram á notagildi og gæði annarsflokks æðardúns.
„Það var virkilega ánægjulegt að sjá fjölda umsókna um almenna styrki í Hönnunarsjóð að þessu sinni þar sem hátt hlutfall var af vönduðum og fjölbreyttar umsóknum. Verkefnin sem hljóta hæstu styrkina í þessari úthlutun eiga það sameiginlegt að vera að vinna að verðmætasköpun fyrir vannýtt hráefni en rauður þráður í verkefnum styrkþega er nýsköpun, tilraunir með efni og efnivið og alþjóðleg sókn. Við hlökkum til að fylgjast með þessum verkefnum vaxa.“
Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar.
Úthlutun fór fram í Grósku föstudaginn 22. mars þar sem Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra menningar og viðskipta ávarpaði hópinn.
Stjórn sjóðsins skipa þau Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar, Steinunn Vala Sigfúsdóttir, vöruhönnuður, Helgi Steinar Helgason, arkitekt, Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir, fatahönnuður og Þórunn Hannesdóttir, vöruhönnuður sem kom inn sem varamaður.
Hér má lesa nánar um verkefnin sem hlutu styrk úr Hönnunarsjóði
Markaðs- og kynningarstyrkir
Alþjóðleg kynning Ranra skór - Arnar Már Jónsson - 2.500.000 kr.
RANRA gefur út sitt fyrsta skópar úr ull í júní '24. Markaðsherferð og kynning á skónum verður sett af stað í apríl 2024 á HönnunarMars á Íslandi og maí-júní alþjóðlega þar sem skórnir verða kynntir í fjölmiðlum. Sýningar verða settar upp í 4 löndum og gegnum herferð sem verður mynduð af Eddie Whelan.
Markaðssetning Kiosk, Kiosk - 2.500.000 kr.
Kiosk heldur áfram að efla hönnunarsenuna hér á landi og býður 5 nýjum hönnuðum pláss í versluninni. Kiosk hefur aldrei verið rekið í hagnaðarskyni en tilgangurinn er að hjálpa hönnuðum að komast á flug.
Hildur Yeoman 10 ára - Hildur Yeoman - 2.000.000 kr.
Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman hefur getið sér gott orð heima og erlendis. Til stendur að auka í kynningu merkisins fyrir utan landssteinana með 2 ára fjölþættu kynningarátaki sem miðast við að auka sýnileika erlendis og stuðla að aukningu í sölu með gagnamiðaðri markaðsnálgun.
Verkefnastyrkir
Annarsflokks - Studio Erindrekar - 5.000.000 kr.
Annarsflokks er hönnunar- og rannsóknarverkefni sem sýnir fram á notagildi og gæði annarsflokks æðardúns. Verkefnið felur í sér að hanna fatalínu og þróa framleiðsluferli úr annarsflokks æðardúni sem leiðir til aukinnar þekkingar á þessari dýrmætu náttúruafurð á Íslandi.
Þrístapar - Agnes og Friðrik - Hringur Hafsteinsson, Inga Rut Guðjónsdóttir hjá Landslagi og Harry Jóhannsson frá Irma Studio - 2.000.000 kr.
Þrístapar er óvenjuleg upplifunarsýning sem hönnuð er utandyra, að Þrístöpum í Húnabyggð, þar sem síðasta aftakan á íslandi fór fram. Gestir fá söguna af Agnesi og Friðriki beint í æð, með fjölbreyttri miðlun, þegar þeir ganga eftir stíg frá þjóðvegi 1 að aftökupallinum sem enn sést.
Frábær smábær - Hjallurinn - Ólafía Zoëga - 2.000.000 kr.
Frábær Smábær er verkefni sem snýr að því að efla tengingu lítils smábæjar við sjóinn, skúrana og bryggjurnar sínar, sem áður voru stærstu samkomustaðir bæjarins en eru að miklu leyti horfnir á braut. Heimamenn fá nýja aðstöðu til sjósunds og gufubaðs sem verður svo einstök að ferðamenn flykkjast að.
Arkitýpa ál afskurðir í hringrás - Arkitýpa - 1.500.000 kr.
ARKITÝPUR eru formræn rýmisgögn úr hringrásarefnum sem auka á samspil á milli upplifunar og nýtingar á rýmum. Verkefnið hefur margþætta nýtingu; Hillur/snagar/veggskúlptúr úr afskurðarefni úr framleiðslu Klaka sem hefur í yfir 50 ár sérhæft sig í framleiðslu á sjálfvirkum búnaði fyrir framleiðslu.
Lyktsynf - Elín Hrund Þorgeirsdóttir og And Anti Matter - 1.000.000 kr.
Ímyndaðu þér heim þar sem skynjanir skarast, hljóð fær lykt, lykt fær útlit. Í sýningunni birtist synþesía/samskynjun okkur í skúlptúrískum hlutum. Unnið er með tengsl tóna og ilms, uppveðrunar, hljómfalls, skynjunar og samruna. Vélrænir hlutir hreyfast og skynjanir áhorfenda blandast á óvæntan hátt.
Hlífðu mér - Lena Rós Baldvinsdóttir - 500.000 kr.
Árlega falla til fjölmargir flotgallar sem notaðir eru við æfingar og neyðarútköll á sjó hjá Landsbjörg og hafa þeir ekki verið endurnýttir hingað til. Í verkefninu er stuðst við hringrásarhagkerfið og flotgöllunum gefið nýtt hlutverk innan starfsemi Landsbjargar sem vatnsheld hlíf yfir sjúkrabörur.
Hönnun á Íslandi - Ágrip af sögu: Endurræst - Elísabet V. Ingvarsdóttir - 500.000 kr.
Endurskipulag og framhald við undirbúning og ritun ágrips af sögu hönnunar á Íslandi.
Hús - Atli Sigursveinsson - 500.000 kr.
Myndlýst bók um íbúðarhús á Íslandi frá landnámi til samtímans. Með fallegum teikningum og aðgengilegum texta er byggingarsaga þjóðarinnar sett fram á listrænan og skemmtilegan hátt. Markhópurinn er börn á aldrinum 10 til 100 ára.
Merki Íslands - Brandenburg - 500.000 kr.
Í bókinni Merki Íslands verður yfirlit íslenskra vörumerkja og mun þar finna þverskurð merkja sem hafa hönnunar- og/eða sögulegt gildi. Hún er hugsuð sem heimild um sjónræna arfleifð grafískrar hönnunar á Íslandi og hönnuði þeirra en vöntun er á slíku verki hér á landi.
Rannsóknar- og þróunarstyrkir
Hraunborgir - Lavaforming - Studio Arnhildur Pálmadóttir - 5,000,000 kr.
Meginviðfangsefni verkefnisins er að þróa byggingarefni úr hrauni sem uppfyllir þá byggingartæknilegu eiginleika sem gerðar eru kröfur til við gerð nútímahúsnæðis fyrir menn og dýr. Verkefnið byggir á rannsóknum sem nú þegar hafa verið gerðar á hrauni, endurbræðslu þess og stýrðri kælingu.
Ibex - Geðræktarþjálfi - Berglind Sunna Stefánsdóttir - 2,000,000 kr.
Stór þörf er hérlendis, og á heimvísu fyrir lágþröskulda og notendavænar lausnir fyrir geðheilsu. Svar Ibex við því er að þróa einstaka snjall vöru fyrir geðrækt sem byggir á vísindalega sönnuðum aðferðum. Notendavæn hönnun er í forgrunni fyrir aðgengi og sérsníðingu fyrir notandann.
Afbrigði og endurgerðir - Dagur Eggertsson - 1,500,000 kr.
Í verkefninu eru skoðuð afbrigði af forsmíðuðum timburhúsum sem byggð voru í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. Þessi svokölluðu katalóghús komu í ýmsum gerðum og voru oft löguð að loftslagi og staðháttum. Ætlunin er að skoða þessar útgáfur og reyna að afmarka afbrigði, eða týplólógíur.
Flöff - Textílvinnslan - Ólöf Sigríður Jóhannsdóttir - 1,500,000 kr.
Flöff textílvinnsla ætlar að koma á fót fyrstu textílendurvinnslustöð Íslands og skapa með því verðmæti úr áður ónýttum textílúrgangi. Flöff notar vélarafl í endurvinnsluferlinu og hannar einstakar vörur úr endurunnum textíl fyrir íslenskan markað og stuðlar þannig að hringrásarhagkerfi.
Þarfagreining á fatnaði fyrir hreyfihamlaða - Arna Sigrún Haraldsdóttir - 1.000.000 kr.
Fatnaður fyrir fólk með skerta hreyfigetu þarf stundum að lúta öðrum lögmálum en sá fyrir ófatlaða. Gerðar hafa verið frumgerðir að flíkum sem eru aðlagaðar að þörfum konu með fjölþætta fötlun og mun nú fara fram dýpri þarfagreiningu og áframhaldandi vöruþróun.
Arctic Fibers - Matthildur Amalía Marvinsdóttir - 1.000.000 kr.
Arctic Fibers er rannsókn og þróun á aðferðum til að umbreyta bast plöntutrefjum á Íslandi, þá sérstaklega lúpínu, í efni fyrir textíl, byggingariðnað og pappírsgerð með það að markmiði að koma á fót smáverksmiðju hér á landi.
Viðarföng - Bananatré og Lerki - Hanna Dís Whitehead - 500.000 kr.
Í verkefninu verður leitast við að þróa áfram og rannsaka áhugaverðar leiðir til að nýta tvær tegundir af staðbundunum eða ónýttum við í verk og vörur. Fyrstu verkin verða sýnd og kynnt á Íslandi ásamt öðrum verkum á HönnunarMars 2024.
Blind Date - Guðmundur Lúðvík Grétarsson - 500.000 kr.
Blint stefnumót í Köln. Guðmundur Lúðvík er á meðal 20 hönnuða í fremstu röð sem hafa verið valdir af Danish Design Makers úr stórum hóp umsækjenda til þátttöku í blindu stefnumóti hönnuða og húsgagnaframleiðenda á Orgatec 2024 í Köln.
Moow Velomobile - Driftwood - 500.000 kr.
Hönnun og smíði frumgerðar af fótstignu farartæki fyrir borgarbúa, með rými fyrir farangur eða barnabílstól. Farartækið er eins konar millistig milli hefðbundins reiðhjóls og bíls, flokkast sem reiðhjól og má þess vegna nýta bæði hjólastíga og götur. Skemmtilegasta lausnin á umferðarteppunum.
Ferðastyrkir að upphæð 150.000 kr.
- As We Grow, Heimsókn til framleiðenda, Perú
- Studio Pluto, Onsenlaug, Japan
- Bergþóra Jónsdóttir, Brand New, Bandaríkin
- Andrá 01, Heimsókn til framleiðenda, Ítalía
- Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Sýning í Apparat, Frakkland
- Sigurlína Margrét Osuala, Samtal um glerunga, Danmörk
- Berglind Ósk Hlynsdóttir, Frabricademy, Armenía
- Hjördís Sóley Sigurðardóttir, Heimsókn til framleiðanda, Holland
- Eygló Margrét Lárusdóttir, Leit að framleiðanda, Portúgal
- Linda Ólafsdóttir, Sýning, Portúgal
- Jóna Berglind Stefánsdóttir, Loftbelgur í Öræfum, Ísland