Icelandair og Plastplan taka græn skref í átt að sjálfbærri framtíð
Samstarf Icelandair og Plastplans er kynnt til leiks á HönnunarMars en um ræðir litrík og einstök töskuspjöld sem eru táknræn fyrir íslenska andann og undirstrika að verðmæti leynast víða. Íslenska fyrirtækið Plastplan sérhæfir sig í að nýta plastúrgang frá fyrirtækjum og breyta í nytjahluti.
Markmið þeirra er að vinna að sjálfbærni og hringrás efnisnotkunar og finna notagildi á óvæntum stöðum.
Icelandair kynntust Plastplan árið 2021 þegar unnið var að heimildarmynd fyrir Hönnunarmars það ár. Björn Steinar Blumenstein, einn stofnenda fyrirtækisins, sýndi hvernig þeir nýta plastúrgang og nota hugarflugið í samspili við tækni til þess að framleiða hluti sem eru ekki bara skemmtilegir að sjá heldur hafa gott notagildi líka. „Við vorum svo innblásin af þeirra vinnu að við ákváðum að fara í samstarf við þau og hófum að leita að réttu verkefni," segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Í aðdraganda Hönnunarmars 2022 kom tækifærið til að hefja samstarf þar sem áhugafólk um hönnun hvaðanæva að úr heiminum var um það bil að leggja leið sína til Íslands og við hæfi gefa eitthvað ferðatengt sem segir sterka sögu. Þar kom til kasta Plastplan, en þau hönnuðu og framleiddu töskumerkingar úr úrgangsplasti. Þessi skemmtilegu, litríku og einstöku töskuspjöld eru táknræn fyrir íslenska andann og undirstrika að verðmæti leynast víða. Meira að segja í rusli.
Samstarfið takmarkar þann plastúrgang sem fer í urðun eða er sendur úr landi til endurvinnslu og er bara eitt skref sem við erum að taka á vegferð okkar til grænni framtíðar – og eitt dæmi um hvernig íslenski andinn á fullt erindi við heiminn.