Innsýn- Grugg og Makk
Félag vöru- og iðnhönnuða hefur hafið framleiðslu á örþáttaröðinni Innsýn þar sem markmiðið er að sýna breidd félagsfólks. Þáttaröðin samanstendur af stuttum viðtalsklippum við ólíka hönnuði sem starfa í allskonar geirum og er miðlað á Instagramreikning félagsins. Hér eru þeir Kjartan Óli og Sveinn Steinar hönnuðir sem saman reka bruggfyrirtækið Grugg og Makk sem hefur það að leiðarljósi að fanga bragð af stað og stund úr íslenskri náttúru.
Kjartan Óli Guðmundsson útskrifaðist með sveinspróf í matreiðslu árið 2012 og í kjölfarið starfaði hann á ýmsum veitingastöðum og stofnaði pop-up viðburðafyrirtækið Borðhald þar sem áhersla var lögð á að nýta hráefni úr nærumhverfi, villtar jurtir o.s.fv. Árið 2019 útskrifaðist Kjartan með B.A gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands. Frá útskrift hefur Kjartan tekið þátt í fjölmörgum Hönnunar og listasýningum. Opnað fataverslun og veitingastað ásamt því að starfa í ráðgjöf við vöruþróun núna seinast hjá matvælaframleiðslufyrirtækinu Ora.
Sveinn Steinar Benediktsson lauk B.A. gráðu í grafískri hönnun (2013) og M.A. í hönnun (2020) frá Listaháskóla Íslands. Hann hefur komið að ýmsum hönnunar- og myndlistarsýningum ásamt því að vinna sem leiðsögumaður frá 2005. Hann þekkir hálendið mjög vel sem gönguleiðsögumaður og skráir jafnan niður áhugaverð og afskekkt svæði.
Við hittum strákana á Kex Hostel. Þeir eru sem stendur að leggja drög að smakkupplifunarkvöldum sem verða haldin á Kex og var því tilvalið að hittast þar. Við mældum okkur mót að morgni miðvikudags, það gleymist oft að Kex er fyrst og fremst hostel og því tóku sofandi ferðalangar á móti okkur þegar komið var inn á staðinn á annarri hæð. Við komum okkur fyrir í herbergi inn af salnum, sem innréttað var í sirkusþema en andrúmsloftið var þæginlegt. Það var skemmtileg tilbreyting að hitta tvo hönnuði, kynnast dýnamíkinni þeirra á milli og fá þá til að kasta spurningunum svolítið á milli sín.
Grugg og Makk er sem áður segir bruggfyrirtæki sem framleiðir bjór og mögulega aðrar matvörur tengdar gerjun. Þeir reyna að fanga þessa hugmynd um “hvernig bragðast staður” út frá örverum og vistkerfum svæða á Íslandi. Með ólíkum tengundum af bjór finna þeir út hvernig brögðin eru lík eða ólík á eins og Sveinn orðar það “þessari einangruðu eyju okkar.”
Við reynum að fanga þessa hugmynd hvernig bragðast staður. Við notum síðan ákveðna bruggferla og bjór sem miðlunartæki fyrir þessa hugmynd.
Sérstaða Grugg og Makk er hvernig þeir skapa jafnvægi á milli matreiðslu og hönnunar en fyrirtækið hefur að mörgu leiti fullkomnað þessa jafnvægislist. Við spurðum þá hvernig þeir fara að því og svaraði Kjartan að það sé “náttúrulega alltaf rosa mikil hönnun í matreiðslu” en bætir við að þeir séu kannski að taka konseptið lengra, að það sé hugsun og ástæður á bakvið þær ákvarðanir sem teknar eru. Þeir eru með skýra rannsóknarspurningu “hvernig bragðast staður” og líkt og í mörgum hönnunarverkefnum velja þeir svo miðil til að miðla rannsókninni. Í tilfelli Grugg og Makk eru bruggferillinn og bjórinn miðlarnir sem svara spurningunni. Rými til samtals er svo enn annar miðill sem Grugg og Makk nýtir, þeir hanna matarboð og bjórsmakk og fá utanaðkomandi aðila til að svara spurningunni frekar.
Oft snýst samstarf um að gefast ekki upp, það getur alveg tekið á að vinna í samstarfi en það er allt í lagi að það taki smá á.
Þar sem þessi sería er unnin í samstarfi tveggja hönnuða höfðum við sérstakan áhuga á að spurja þá út í það hvað sé mikilvægt að hafa í huga þegar tveir hönnuðir vinna saman. Sveinn benti á að þeir þurfi nú fyrst og fremst að hlusta og treysta hvor öðrum. Hann bætti svo við að það væri mikilvægt að hugsa upphátt og að koma með lélegar hugmyndir, því út frá þeim koma oft þær góðu. Kjartan bætir svo við í lokin að það skipti miklu máli að gefast ekki upp og bætir svo við að “það getur alveg tekið á að vera í samstarfi, en það er alltílagi að það taki smá á.”
Innsýn er nýr liður hjá félagi vöru-og iðnhönnuða en félagið hefur um nokkurt skeið glímt við það vandamál að nafn félagsins nær ekki utan breidd félagsmanna. Á tímabili voru ræddar nafnabreytingar á borð við félag hönnuða en stígur það óhjákvæmilega á tær annarra félaga. Í stað nafnabreytingar hefur félagið því ákveðið að hrinda Innsýn af stað sem lausn við þessu vandamáli.
Samfélagsmiðlanefnd félagsins heimsækir í Innsýn meðlimi, sem allir hafa lokið hönnunarnámi en farið svo sínar leiðir, allir eiga það þó sameiginlegt að nýta hönnun í margbrotnu starfi en í vor fáum við að kynnast því betur.