Fjárfestum í hönnun, ungir fatahönnuðir og fjölbreyttar sýningar hjá Landsbankanum á HönnunarMars
Landsbankinn tekur þátt í HönnunarMars með fjölbreyttum viðburðum, bæði sem bakhjarl hátíðarinnar og svo verða fjölbreyttar sýningar á jarðhæð nýrra húsakynna bankans við Reykjastræti.
Annað árið í röð stendur Landsbankinn fyrir samtali um fjárfestingar og hönnun föstudaginn 26. apríl en í fyrra komust færri að en vildu. Einnig verða fá ungir fatahönnuðir sviðið undir yfirskriftinni Young Talents of Fashion Design á sýningu sem lifnar við kl. 17:00 laugardaginn 27. apríl.
Hér má sjá yfirlit yfir sýningar og viðburði hjá Landsbankanum á HönnunarMars í ár
Fjárfestum í hönnun
Hvers vegna á að fjárfesta í hönnun og hvaða leiðir hafa hönnuðir til að sækja sér fjármagn? Á þessum viðburði HönnunarMars er fjallað um mikilvægi þess að fjárfesta í hönnun. Reynslumiklir einstaklingar úr heimi hönnunar og fjárfestinga deila sinni sýn, svara spurningum og taka þátt í umræðum. Meðal þeirra sem koma fram eru: Erik Rimmer, BO BEDRE editor-in-chief, Martta Louekari, JUNI Communication Director, Ragna Sara Jónsdóttir, FÓLK founder & creative director og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, Krónan, verkefnastjóri sjálfbærnismála.
Young Talents of Fashion Design - Landsbankinn
Landsbankinn í samstarfi við HönnunarMars gefur sjö ungum fatahönnuðum sviðið á hátíðinni. Vel valdar flíkur frá hönnuðunum verða til sýnis í bankanum þar sem gestum gefst tækifæri til að sjá og upplifa handverk þeirra ásamt því að fá innsýn inn í þeirra vinnu og hvert fatahönnuðir framtíðarinnar stefna. Sýningin lifnar svo við laugardaginn 27. apríl kl. 17:00 á viðburði sem enginn má láta framhjá sér fara.
DesignMatch
Á DesignMatch mæta íslenskir hönnuðir erlendum kaupendum og framleiðendum á kaupstefnu. Þar gefst hönnuðum tækifæri á beinum samskiptum við aðila sem annars getur reynst erfitt að ná til. Á kaupstefnunni kynna hönnuðir sjálfa sig og verk sín, bæði ný og eldri. Markmiðið er að veita íslenskri hönnun brautargengi og stækka starfsumhverfi hönnuða. Viðburðurinn er lokaður og krefst forskráningar.
FLEY - Samsýning upprennandi hönnuða
FLEY er samsýning upprennandi hönnuða sem haldin verður í fyrsta skiptið á HönnunarMars í ár. Sýningin er ætluð sem lendingarpallur fyrir upprennandi hönnuði jafnt sem fley sem flytur þau áfram inn í íslenskt hönnunarlíf. Hönnuðirnir eru einskonar þyrlur, hlaða fleyið góssi og bera svo frá því mikilvægan varning, þekkingu. Þau svífa svo af stað inn í framtíðina.
Innsýni
Innsýni fagnar upprennandi íslenskum fatahönnuðum með sýningaropnun á HönnunarMars þriðja árið í röð en í ár verða sex íslenskir fatahönnuðir kynntir. Sýningin styður við markmið Innsýnis sem er að efla og styðja við næstu kynslóð íslenskra hönnuða og veita þeim aðstöðu og skapa grundvöll þar sem þau geta sýnt sköpunarverk sín og myndað tengsl við íslenskan jafnt sem erlendan iðnað.
Hljómkassar
Verkefnið „Hljómkassar“ miðar að því að hanna og smíða nýstárlega, stefnuvirka hátalara úr íslenskum efnivið. Lögun hátalaranna hefur áhrif á hvernig hljóðið kastast út í umhverfi sitt og litast hljómurinn af því og gefur því akústískan blæ. Hátalararnir eru hugsaðir fyrir tónlistarfólk þar sem þeir nýtast í hljóðupptökur og lifandi flutning. Verkefnið er unnið í samstarfi við Inorganic Audio sem er íslenskt hljóðtæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir tónlistarfólk.
Merkileg
Merki gegna veigamiklu hlutverki í okkar daglega lífi. Á hverjum degi sjáum við þau allt í kringum okkur, aftur og síendurtekið en alla jafna gefum við þeim lítinn gaum. Sýningin Merkileg er haldin í tengslum við vinnslu á bókinni Merki Íslands sem mun innihalda samansafn merkja sem hönnuð hafa verið á Íslandi.
Hæ/Hi: Vol III | Velkomin
Hæ/Hi: Designing Friendship hópurinn, sem er samvinnuverkefni hönnuða og hönnunarteyma frá Íslandi og Seattle, tekur fyrir þá hluti og þær athafnir sem tengjast heimkomu og brottför, móttöku og kveðjustund, á þriðju sýningu sinni, Hæ/Hi: Vol III | Welcome.
Snúningur
Getur einkennisfatnaður orðið að tösku? Snúningur er samstarfsverkefni Icelandair og vöruhönnuðanna Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur hjá Stúdíó Fléttu. Verkefnið felur í sér að finna eldri einkennisbúningi Icelandair nýjan farveg en Icelandair tók í notkun nýjan einkennisfatnað á síðasta ári. Stúdíó Flétta leggur sérstaka áherslu á endurnýtingu efna, staðbundna framleiðslu og ábyrga hönnun sem er um leið áhugaverð og lausnamiðuð.