Minn HönnunarMars - Birna Bragadóttir
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Birna Bragadóttir, formaður stjórnar Hönnunarsjóðs og forstöðukona tækni- og sögusýningar Elliðaárstöðvar, deilir hér hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Hér eru þær sýningar sem Birna ætlar ekki að missa af í ár
Maðurinn í skóginum
Það er notalegt að koma sér fyrir í skógarjóðri í Elliðaárdalnum og njóta fallegrar hönnunar. Ég ætla að bjóða fjölskyldunni með mér í skógargöngu í Elliðaárdalnum og skoða hönnunarinnsetningar tveggja ólíkra hönnunarteyma sem skapa þar áfangastað í skógarrjóðrum. Það verður dásamleg byrjun helginni.
Eldblóm – ræktaðu þína eigin flugelda
Umhverfisvæn og skemmtileg nálgun að rækta eigin flugelda án þess að menga. Við þurfum fleiri umhverfisvænar lausnir og finnst mér heillandi við það að geta ræktað eigin flugeldasýningu í garðinum.
Shape. Repeat
Tilraun Valdísar Steinsdóttur um mótun og endurmótun við framleiðslu á fatnaði finnst mér spennandi og framsýn. Ég mun því koma við í Hörpu til að skoða sýninguna hennar.
Ástarbréf til Sigvalda Thordarson
Ég er mikill aðdáandi arkitektsins Sigvalda. Við fjölskyldan búum í Sigvaldahúsi og er ég áhugasöm að vita meira um hans verk. Því stefni ég að fara í rútuferð til að kynnast betur verkum hans.
Öllum hnútum kunnug
Hlutverk reipa og hnúta við hinar ýmsu aðstæður er forvitnilegt að skoða. Þetta er sýning sem ég mun ekki láta framhjá mér fara.