Minn HönnunarMars - Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Dröfn Ösp Snorradóttir-Rozas, leikmyndahönnuður deilir hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
,,Það má með sanni segja að það sé einstaklega mikil eftirvænting fyrir Hönnunarmarsinum í ár hjá mér persónulega enda aldeilis gengið á menningarþörf mína til að komast á gallery og söfn til að skoða afrakstur þessa ofurhæfileikaríka fólks sem hefur sérdeilis haft tíma til að hugsa upp og hanna nýja hluti. Ofan á eftirvæntingu mína hef ég verið að vinna í leikmynda-og hönnunargeiranum í Los Angeles og alltaf misst af þessu hérna heima í fleiri ár þannig ég vægast sagt extra spennt.
Ég er með eindæmum pepp fyrir HönnunarMars 2021 sérstaklega til að sjá hluti frá fólki sem maður hefur kannski ekki heyrt mikið um og sjá það spretta upp gjörsamlega fullmótað með brjálæðislega spennandi hluti sem ég um leið þrái að koma mínum klóm í.
Það er í raun og veru eins og að gera upp á milli barnanna sinna að reyna að velja hvaða viðburðum og sýningum maður má hreinlega ekki missa af en ég ætla að gera heiðarlega tilraun til þess – þó að ég hvetji alla til að nýta sér tækifærið og skoða allt sem er í boði."
Frontur
Ég eyddi tæpum þremur árum í taka húsið mitt í gegn í Los Angeles og mikið af þeim tíma fór í að hugsa eldhús enda dóttir matreiðslumeistara og það dugði ekkert minna en fullkomnum. Innréttingar eins og eldhús vill maður alltaf hafa þetta „auka!" eitthvað sem ærir mann úr gleði. Frontur er hugmynd Sigríðar Arngrímsdóttur arkitekts hjá Arkotek og er öllu tjaldað til sem maður óskar - íslensk framleiðsla og umhverfisvæn, klassík og falleg.
Umskipti
Hanna Dís Whitehead er listamaður og hönnuður sem ég hef verið að fylgjast með í svolítinn tíma og er svo heppin að eiga frá henni tvo dásamlega skúlptúra. Í vetur hef ég verið að ,,njósna” um þetta sjúklega spennandi verk sem hún hefur verið að vinna með og handhnýta teppi með vísun í keramík flísar og hvernig mynstur talar saman milli útfærsla og efnistaka og hvernig hluturinn verður þá að allt öðrum hlut. Umskipti eru algjör negla sem enginn á að láta framhjá sér fara.
Mygluprentari
Eftir að hafa búið í Los Angeles í 12 ár og fylgst náið með framlínu þess að vera betra mannkyn um að nýta hluti og vera umhverfisvænni þykir mér einstaklega vænt um að sjá hversu mörg verkefni eru á dagskrá í ár á HönnunarMars 2021 sem fókusa á endurnýtingu á rusli og hugleiðingar um byltingar á þessu sviði eru lífsnauðsynlegar. Mygluprentari spyr einfaldlega: ,,Er hægt að nýta myglu sem blek?” og þar sem prentblek er víst dýrara en mannsblóð í innkaupum þá fagna ég þessari hugmynd. Útkoman er ótrúleg.
Öllum hnútum kunnug
Brynhildi og Þuríði hef ég verið að fylgjast með og dást að í langan tíma og er einstaklega spennt fyrir að sjá þetta verkefni sem þær eru að vinna með Theresu. Ég virðist greinilega vera mjög hrifin af kross-hönnun milli hönnunarheima þetta árið en ég elska allt sem kemur með svona tvist og tvöfaldast eða þrefaldast í þeim skilningi að vera nýtt til eins en með smá hugviti og hönnun er nú búið að snúa hugmyndinni á hvolf í eitthvað sem er svona skemmtilegt.
Grapíka Íslandica – Hvað er að ske?
Það er ekki sjens að rúlla í gegnum HönnunarMars 2021 án þess að taka rúnt á Grapíku og sjá hvað þessar yfirmáta hæfileikaríku félagskonur eru að fást við. Enginn ætti að láta þetta framhjá sér fara til að vera gulltryggð að kafna svo ekki úr FOMO því að þessar konur eru klárlega að leggja línurnar fyrir grafíska hönnun og áhugavert að sjá hvað þær brenna fyrir í augnablikinu.
Dagsson by Eygló
Hvað get ég sagt - tveir snillingar leiða saman hesta sína og búa til Hugleiks-dragtir með einstöku sjónarhorni og hönnun Eyglóar - ég bilast og ærist í senn hvar kaupi ég og takið alla peningana mína!!!
Peysa með öllu fyrir alla
Ýrúrarí peysu dreymir mig um að eignast og ég læt mig ekki vanta að fara og kanna hvað galdrakonan Ýr Jóhannsdóttir er búin að kokka upp fyrir okkur með sínum dásamlegu verkum. Hönnun dagsins í dag stendur fyrir frammi öðrum og alvöru ógnum eins loftslagsvá og ósjálfbærri neytendahyggju. Með þær hættur að leiðarljósi þurfum við að finna betri leiðir til að bæta heiminn - peysur og textíll fær hérna nýtt líf sem er svo hérna orðið fabujúlús hátíska - þetta er win-win!