Minn HönnunarMars - Elísabet Gunnarsdóttir
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Elísabet Gunnarsdóttir á Trendnet deilir hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
,,Ég bíð spennt eftir hönnunarmars ár hvert og í vali á mínu uppáhaldi þetta árið ákvað ég að leggja áherslu á fatahönnun. Það er heldur betur frábær dagskrá í ár - áfram íslensk hönnun! Ég hlakka til að sjá þetta - og miklu miklu meira..."
Splash! - ný fatalína Hildar Yeoman
Ég dáist af dugnaðinum í Hildi, ár eftir ár, og varð mjög spennt að sjá að ný fatalína væri væntanleg frá henni á HönnunarMars. Hildur hefur hingað til dregið okkur inn í sinn einstaka ævintýraheim þar sem hún segir sögur og fær innblásturinn frá töfrum Íslands. Það má því má alls ekki missa af hennar ferska efni og andanum sem fylgir nýjum línum hverju sinni. Í ár frumsýnir hún klæðin í verslun sinni á Laugavegi, ég er spennt fyrir Splash!
BAHNS
Föstudaginn 19. maí ætlar BAHNS að kynna þriðju sundfatalínu sína í Vesturbæjarlaug. Ég er vissulega spennt að sjá sundfatnaðinn en finnst líka alveg frábært að það verði frítt í sund á sama tíma - tíska og frábær fjölskyldustund í leiðinni? Count me in! Sund er best í heimi, og ekki verra að hoppa út í laugina í íslenskum sundfatnaði.
MAGNEA
Ég er aðdáandi Magneu og þeirra gæða sem hún dregur fram úr erminni hverju sinni. Hlakka til að sjá þær nýjungar sem hún hefur unnið að úr prjóni að þesssu sinni. Ég kann alltaf vel að meta þegar hönnuðir tjá íslenska arfleið og færa hana yfir í nútímann. Magnea leggur einnig mikla áherslu á sjálfbærni og íslenska framleiðslu, sem heillar.
ANITA HIRLEKAR x CUTLER AND GROSS
Úllala, ég er mjög spennt fyrir gleraugnalínu. Það er eitthvað nýtt og ferskt við þessa stefnu hjá Anítu Hirlekar sem ætlar að frumsýna fyrir okkur gleraugnalínu í samstarfi við Cutler and Gross í London, framleidd á Ítalíu úr hágæða efnum.
Sif Benedicta X Brynja Skjaldar
Halldóra, hönnuðurinn á bakvið merkið Sif Benedicta hefur hannað handtöskur, hálsmen og slæður með góðum árangri hingað til. Nú ætlar hún að sameina krafta sína með fatahönnuðinum Brynju Skjaldar og sýna okkur fatalínu á Hönnunarmars. Ég er með væntingar og býst við fallegum flíkum.
Hundrað hlutir sem við heyrðum
Þessi skemmtilega hugmynd heillar kaffikonuna. Ég hef ekki tölu á því hversu oft maður hefur sest niður á kaffihús og byrjar (alveg óvart) að hlusta á samtal á næsta borði.