Minn HönnunarMars - Karl Guðmundsson
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Karl Guðmundsson, forstöðumaður útflutninga og fjárfestinga hjá Íslandsstofu deilir hvaða sýningum hann ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Karl ætlar ekki að missa af í ár
Hlutverk
Sýning Félags vöru- og iðnhönnuða í Ásmundarsal. Spennandi hönnuðir sem finna hlutum ný hlutverk. Frábær sýning til að sjá ferska nálgun vöru- og iðnhönnuða.
Tölvuleikir sem hannaður hlutur
Örráðstefna í Grósku. Það er sannarlega mikil gróska í tölvuleikjasenunni og er vaxandi hluti útflutnings að koma úr þessum spennandi geira. Íslendingar eiga hæfileikafólk starfandi um allan heim í tölvuleikjafyrirtækjum og verður gaman að heyra hvernig tölvuleikir eru hannaðir.
Maðurinn í skóginum
Skógarganga í Elliðaárdal. Það er alltaf spennandi að fara í göngu um íslenskan skóg og er tilvalið að fara í Elliðaárdalinn til að brjóta upp borgarröltið og fá smá súrefni í lungun. Þrjú hönnunarteymi með innsetningar og fræðsla í boði.
Kristín Þorkelsdóttir
Sýning á verkum heiðursverðlaunahafa Hönnunarverðlaunanna í Hönnunarsafni Íslands. Mögulega sá grafíski hönnuður sem hefur haft mest áhrif á samtíma okkar. Ótrúlega fjölbreytt verk sem við höfum öll handfjatlað eða horft á.
FÓLK 2021
Sýning á vörum FÓLK á Kolagötu. FÓLK hefur náð flottum árangri með spennandi vörulínu sem byggist á hringrásarhugsun. Hafa verið að taka fyrstu skrefin í útflutningi og verður spennandi að fylgjast með þeirri vegferð.