Minn HönnunarMars - Elísabet Alma
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Elísabet Alma Svendsen, frá ráðgjafaþjónustunni Listval deilir hér hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Elísabet ætlar ekki að missa af í ár.
Hönnun í anda Ásmundar
Ég með safnbúðablæti á háu stigi og þar getur maður gleymt sér í fallegum varningi, bókum ofl sem tengist sýningum safnanna. Nú er búið að endurgera safnverslun Ásmundarsafns og hefur Listasafnið fengið nokkra vöruhönnuði til að hanna vörur í anda Ásmundar Sveinssonar. Ég er mjög spennt að sjá þá útkomu enda myndheimur Ásmundar hreint ótrúlega fallegur og hefur verið innblástur fyrir ótal myndlistarmenn og hönnuði.
Eldblóm
Þetta er einn af hápunktum Hönnunarmars fyrir mig. Ég er mikil blómakona og hef fylgst með þessu verkefni mjög lengi þar sem Sigga Soffía bjó hliðina á mér þegar hún var að undirbúa sýninguna á Listahátíð í Reykjavík síðasta sumar. Akkúrat þessa dagana er ég að bíða eftir að eldblómin mín/hýðin sem ég ræktaði frá Eldblóm rísi upp úr moldinni heima. Mæli sannarlega með.
Jarðsetning
Það er eitthvað svo sérstakt að fylgjast með niðurrifi húsa sem maður hefur haft í umhverfinu alla tíð. Hér er á ferð videoinnsetning þar sem fylgst er með niðurrifi gamla Iðnaðarbankans við Lækjargötu innan úr byggingunni. Ég man eftir því þegar rífa átti bygginguna 2017 og það var haldin athöfn þar sem heiðra átti bygginguna. Jarðsetning er að hluta unnin af sama hópi. Þessi sýning vekur upp mikin áhuga hjá mér enda mikil áhugamanneskja um arkitektúr og menningarleg verðmæti bygginga. Svo sýnist mér innsetningin vera á mörkum myndlistar og hönnunar sem gerir hana áhugaverða.
Maðurinn í skóginum
Allt tengt upplifun og hönnun vekur upp áhuga hjá mér. Þetta verkefni er spennandi þar sem nokkur hönnunarteymi hafa skapað áfangastaði inni í skógarrjóðrum Elliðárdalar. Ég ólst upp við dalinn alla mína æsku og á þaðan margar minningar, ég fór með nesti, hoppaði í fossa, fór í leiki inni í skóginum og í dag fer ég reglulega með syni mína þangað í ævintýraferðir. Ég mæti klárlega í þessa spennandi skógargöngu.
Iucollecta al fresco
Það er svo gaman að sjá verkefni sem vinna þvert á miðla eins og þessi virðist gera. Hér er líka verið að vinna með upplifun með það að markmiði að tengja verkið og áhorfendur við náttúruna. Í raun veit ég ekkert við hverju er að búast en miðað við lýsingu sýningarinnar á vefsíðunni er ég á því að þetta er klárlega sýning sem er þess virði að kíkja á.