Ný herferð og heimasíða frá Fatahönnunarfélagi Íslands - Íslensk flík

4. desember 2020

Íslensk flík er vitundarvakning Fatahönnunarfélags Íslands sem miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem íslensk fatahönnunarfyrirtæki bjóða upp á ásamt þeim möguleikum sem felast í greininni. Nú hefur ný  herferð og ný heimasíða litið dagsins ljós.

Um er að ræða myndir eftir ljósmyndarann Viðar Loga og verða þær til sýnist í gluggum á Laugavegi 114 (þar sem Tryggingarstofnun var til húsa). Fatnaður er frá 66°Norður, Geysi og Kalda. Stílisti er Diana Breckmann, listræn hægri hönd er Jón Albert og fyrirsæta er Tamara Akinyi.

Átakið er vitundarvakning Fatahönnunarfélags Íslands sem miðar að því að kynna íslenska fatahönnun og vekja athygli á því framúrskarandi hugviti og þeim fjölbreyttu vörum sem íslensk fatahönnunarfyrirtæki bjóða upp á ásamt þeim möguleikum sem felast í greininni. Fatahönnun er ungt fag á Íslandi og þrátt fyrir stöðugan vöxt er greinin ekki eins rótgróin og í mörgum löndum. Það þarf þó ekki að líta lengra en til næstu nágrannalanda til að sjá að efnahagslegt virði hennar getur verið talsvert.

Íslenskir fatahönnuðir hafa með réttum stuðning allar forsendur til þess að fylgja í fótspor nágrannalandanna, efla atvinnugreinina og skapa verðmæti og fleiri störf. Neytendur geta haft áhrif á eflingu og vöxt innlendra atvinnugreina með því að velja íslenskar vörur. Íslensk fatahönnun er oft umhverfisvænni kostur og með því að velja hana styður þú við eflingu vaxandi atvinnugreinar á Íslandi.

Fatahönnunarfélag Íslands trúir því að íslensk fatahönnun sé byggð á þörfum, reynslu og arfleið samfélagsins hér og með því að velja hana sýnir fólk stuðning við eflingu vaxandi atvinnugreinar á Íslandi. Með verkefninu villl félagið vekja athygli fólks á því að staldra við og skoða íslenska fatahönnun næst þegar það fjárfestir í flík.

Dagsetning
4. desember 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fatahönnun