Rannsóknir í mannvirkjagerð-Bréf frá Vísindaráði til félagsmanna
Arkitektafélagi Íslands hefur borist bréf frá fulltrúa í Vísindaráði mannvirkjagerðar, Halldóri Eiríkssyni, FAÍ og formanni SAMARK, þar sem arkitekar eru hvattir til að lista upp þær rannsóknir sem þeir telja aðkallandi í mannvirkjagerð.
Vísindaráð mannvirkjagerðar var sett á fót í mars sl. í kjölfar útgáfu HMS á Vegvísi í mótun rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar . Með aðstoð starfs- og rýnihópa um sértæka málaflokka mun vísindaráðið greina rannsóknaþörf á sviðum mannvirkja- og húsnæðismála með hliðsjón af húsnæðisstefnu, landsskipulagsstefnu og loftslagsmarkmiðum Íslands, sbr. aðgerð 9 í þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs fyrir árin 2023–2026.
---
Sæl öll,
Vísindaráð Mannvirkjagerðar í umsjón HMS hefur hafið störf og er því ætlað að skapa ramma utan um rannsóknir í mannvirkjagerð í kjölfar þess að Nýsköpunarmiðstöð Íslands var lögð niður – en margir, m.a. við arkitektar höfum kallað eftir því að slík rannsóknarstarfsemi verði skilgreind.
Undirritaður situr í ráðinu fyrir hönd SAMARK og AÍ, en á fyrsta fundi ráðsins nú í byrjun maí var óskað eftir því að fulltrúar tæku saman lista yfir þær rannsóknir sem þeirra bakland teldi aðkallandi í mannvirkjagerð. Þetta verður auðvitað ekki endanlegur listi á þessum tímapunkti, enda rannsóknarþörf í sífelldri endurskoðun, en getur hjálpað við að byrja að kortleggja þarfir og fyrirkomulag rannsóknarstuðnings.
Rannsóknir á sviðinu geta verið margskonar: Þjónusturannsóknir, eins og vottun byggingahluta eða rannsóknir á myglu; Grunnrannsóknir í efnisfræðum eða séríslenskum aðstæðum; Nýsköpun í efnis- eða byggingatækni eða þróun framkvæmda- eða nýtingaferla (t.d. markaður með endurnýttar byggingavörur) auk margs annars.
Í eyðublaði hér fyrir neðan má á einfaldan hátt setja inn tillögu að rannsóknum sem þið teljið brýnar. Ég mun safna þeim saman sem mér berast og leggja í sarpinn.
Óska ég eftir að fá tillögur sendar fyrir 27.maí nk. Með eins miklu fyllt út af viðkomandi formi og ykkur finnst ástæða til, og eins margar rannsóknartillögur og þið teljið þörf á.
Svo má auðvitað senda mér gögn áfram eftir 27.maí, en það er ekki víst að það náist að nýta það á þessum fundi, en þá verða örugglega tækifæri fyrir það síðar.
Það er engin ástæða til að hafa samband við mig og spyrja hvort eitthvað falli undir rannsóknir á mannvirkjagerð – sendið einfaldlega tillögur á mig og ég kem því áfram til umræðu og útfærslu. Tillögur þurfa ekki að vera undir nafni.
Sendið á halldor@tark.is með fyrirsögninni „Vísindaráð“