Safna fyrir lista- og menningaráfangastaðnum Höfuðstöðinni

Myndlistarkonan Hrafnhildur Arnardóttir/Shoplifter, stendur að opnun Höfuðstöðvarinnar í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekunni. Um er að ræða lista- og menningaráfangastað sem mun til að mynda geyma varanlega uppsetningu Hrafnhildar, Chromo Sapiens. Hönnuðurinn Björn Blumenstein og fyrirtækið Plastplan sér um innréttingar. Verkefnið er 100% sjálfstætt fjármagnað og núna stendur yfir söfnun á Kickstarter, sem rennur út á sunnudaginn 8. ágúst.
Shoplifter er einn fremsti nútímalistamaður Íslands og innsetningin Chromo Sapiens var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2019 og vakti heimsathygli. Shoplifter er fyrsta íslenska konan til að opna miðstöð fyrir listaverk sín á Íslandi og bjóða almenningi að upplifa verk sín til frambúðar en Hrafnhildur stendur að verkefninu ásamt samstarfskonu sinni Lilju Baldurs.



Björn Blumenstein og Plastplan sjá um allar innréttingar í Höfuðstöðinni og hafa verið á fullu í allt sumar að smíða borð, stól og annað en arkitektinn Iwo Borkowicz er einnig að vinna þetta með þeim. Plastplan sérhæfir sig í endurvinnslu plastefna, hönnun og fræðslu.





„Við erum búin að vera að gera þetta allt saman upp, en þetta er meiriháttar hús. Við ætlum að opna hér kaffihús með þessum líka stóra útipalli sem snýr í suður. Ég hugsa að þetta verði besti staðurinn til að fara á trúnó á Íslandi,“ segir Hrafnhildur í nýlegu viðtali við Mbl.is.
„Hér er maður alveg við Elliðaárdalinn og ekkert sem byrgir manni sýn á náttúruna. Fólk þarf ekkert endilega að koma á sýninguna, heldur getur það komið á kaffihúsið. Þetta er sveitasæla inni í miðri Reykjavík og allt annað andrúmsloft en í miðbænum,“ segir Hrafnhildur og segist sjá fyrir sér að í hinum fimm bröggunum verði einnig lista- og menningarstarfsemi af einhverju tagi. Lestu viðtalið hér.
Hér er hægt að styrkja verkefnið á Kickstarter en söfnunin rennur út sunnudaginn 8. ágúst næstkomandi.
