„Tæknin vísar veginn og hefur áhrif á hugarflug okkar að því leyti hvað er mögulegt að gera og hvernig við getum nýtt það til að gera eitthvað enn flóknara”
Valdís Steinarsdóttir, vöruhönnuður sem farið hefur óhefðbundnar leiðir og Halldór Eldjárn, listamaður sem vinnur með tónlist, forritun, vísindi og hönnun ræða um sköpun, tilraunir, tækni, nýjar leiðir - og trylltan áhuga í hlaðvarpi HönnunarMars, DesignTalks talks, sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
Í þættinum ræða þau við Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuð og stjórnanda DesignTalks sem hefur umsjón með hlaðvarpinu, meðal annars um mikilvægi samtalsins í hönnun og sköpun við vísindi, raungreinar og annað.
„Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt í allri hönnunarvinnu og bara vinnu yfir höfuð, að vera með samstarf og að hafa sem breiðastan hóp af fólki. Að fá að setjast niður með kláru fólki og ræða hlutina það ýtir öllu svo miklu hraðar áfram,“ segir Valdís og leggur áherslu á mikilvægi þess að samtvinna þekkingu fólks með ólíkan bakgrunn og menntun.
Bæði Valdís og Halldór tóku þátt í HönnunarMars í maí 2021. Valdís með verkefnin Shape. repeat og Mygluprentarann og Halldór með sýninguna Ólífrænt. Þeirra verkefni eiga það sameiginlegt snúast um ákveðið samspil tækni, hönnunar, lista og rannsókna með einum eða öðrum hætti.
„Tæknin vísar veginn og hefur áhrif á hugarflug okkar að því leyti hvað er mögulegt að gera. Sumt sem var áður alveg rosalega flókið er alltí einu orðið alveg rosalega einfalt að gera en þá vill maður ekki stoppa þar heldur hugsa hvernig get ég notað það sem grunneiningu í eitthvað ennþá flóknara (...) það býr alltaf inni í mér að nota þessi tól á einhvern nýjan hátt,“ segir Halldór.
Hlustaðu á hönnunarspjall Valdísar, Halldórs og Hlínar hér :
DesignTalks talks er hlaðvarp um hönnun og arkitektúr og fjallar um víðtæk áhrif greinanna í samfélaginu og ástríðuna sem liggur þar að baki. Það er samtalsvettvangur þar sem fjallað er um hönnun og arkitektúr í allkyns samhengi með frábærum gestum. Nýsköpun, tækni, samfélagslegar áskoranir, loftslagsmál og hvað-eina, af því að þannig er hönnun: snertir við öllu og getur verið mikilvægur drifkraftur nýsköpunar og samfélagslegra framfara. Þættirnir eru fimm talsins.
Aðrir viðmælendur þessarar fyrstu seríu hlaðvarpsins eru þau Ragna Fróðadóttir, textílhönnuður, verkefnastjóri hjá Li Edelkoort Inc. og Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður, stofnandi og eigandi fatamerkisins MAGNEA, Hörður Lárusson grafískur hönnuður, stofnandi og eigandi hönnunarstofunnar Kolofon og Magga Dóra, stafrænn hönnunarleiðtogi, stofnandi og eigandi Mennsk ráðgjöf , Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, stofnandi s.pa. og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður og stjórnandi DesignTalks hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem er framleitt af Studio HönnunarMars og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Tæknimaður er Þorbjörn G. Kolbrúnarson og Halldór Eldjárn samdi stefið.