„Hugtakið sjálfbærni er flókið og viðamikið“
Ragna Fróðadóttir, textílhönnuður, verkefnastjóri hjá Li Edelkoort Inc. og Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður, stofnandi og eigandi fatamerkisins MAGNEA ræða um fatahönnun, textíl og tækni, sjálfbærni - og von í í hlaðvarpi HönnunarMars, DesignTalks talks, sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
„Sjálfbærni hugtakið er flókið og viðamikið og getur verið svo ótrúlega margt, þannig að það getur verið yfirþyrmandi fyrir einnar manneskju fyrirtæki að ætla að tikka í öll þessi box. Mín afstaða hefur þá verið að fókusera á það sem ég get gert hér,“ segir Magnea sem í fyrra frumsýndi línuna Made in Reykjavík, sem var öll framleidd hér á landi en henni finnst við ennþá eiga langt í land með að stjórnvöld styðji með afgerandi hætti við skapandi starfssemi í landinu og talar í því samhengi um stórmerkilegan tískuklasa sem hún heimsótti í Noregi og geti verið mjög góð fyrirmynd.
„Það á allt sitt pláss einhversstaðar, við getum ekki útilokað eitt og samþykkt annað og það er það sem er að breytast svolítið. Finndu leið, ef hún virkar þá er það bara flott,” segir Ragna, sem er búsett í New York þar sem hún starfar hjá Li Edelkoort Inc. Henni var tíðrætt um íslenska hugarfarið, „að gera bara það sem manni sýnist!” sem henni finnst við alveg mega vera stolt af og hlúa að. „Þetta einkenni Íslendinga getur jafnvel bara verið framlag okkar til heimsins, þessi hugsunarháttur fæðir svo margt nýtt.“
Þegar heimsfaraldur bar á góma, voru Ragna og Magnea sammála um að mikilvægi þess að treysta ferlinu og lærdóminn sem af því má draga. Meira sjálfstraust og meira traust væri gott veganesti inn í framtíðina.
„Það er von og mér finnst við bara fá fullt að læra í þessu ferli og var bara algjörlega nauðsynlegt að stoppa okkur aðeins, láta okkur hugsa,“ segir Ragna.
Magnea tekur undir „Ég held líka að þetta geri mann bara meira “confident” í akkúrat því að standa bara fyrir það sem maður stendur fyrir af því að nú er maður búinn að upplifa eitthvað annað.”
Hlustaðu á fróðlegt hönnunarspjall hér
DesignTalks talks er hlaðvarp um hönnun og arkitektúr og fjallar um víðtæk áhrif greinanna í samfélaginu og ástríðuna sem liggur þar að baki. Það er samtalsvettvangur þar sem fjallað er um hönnun og arkitektúr í allkyns samhengi með frábærum gestum. Nýsköpun, tækni, samfélagslegar áskoranir, loftslagsmál og hvað-eina, af því að þannig er hönnun: snertir við öllu og getur verið mikilvægur drifkraftur nýsköpunar og samfélagslegra framfara. Þættirnir eru fimm talsins.
Aðrir viðmælendur þessarar fyrstu seríu hlaðvarpsins eru þau Valdís Steinarsdóttir vöruhönnuður og Halldór Eldjárn, Hörður Lárusson grafískur hönnuður, stofnandi og eigandi hönnunarstofunnar Kolofon og Magga Dóra, stafrænn hönnunarleiðtogi, stofnandi og eigandi Mennsk ráðgjöf , Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, stofnandi s.pa. og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður og stjórnandi DesignTalks hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem er framleitt af Studio HönnunarMars og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Tæknimaður er Þorbjörn G. Kolbrúnarson og Halldór Eldjárn samdi stefið.