Sjálfbær stefnumörkun - rafrænn fyrirlestur 25. mars
David Quass, Global director brand sustainability hjá Adidas heldur rafrænan fyrirlestur um sjálfbæra stefnumörkun hjá vörumerkjum. Hann hefur í átta ár leitt nýsköpunardrifna viðskiptaþróun hjá Adidas þar sem hann hefur sjálfbærni að leiðarljósi. Fundurinn fer fram 25. mars milli 9-10 og fundarstjóri er Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður.
Starf Quass er fólgið í því að setja fram vegvísi sjálfbærrar stefnumörkunar fyrir Adidas vörumerkið og setja vistvænar vörður í nýsköpunarferli fyrirtækisins sem spannar allt frá hugmynd að vörulínu á neytendamarkaði. Þá ber hann ábyrgð á hringrásarferli Adidas sem nær frá hönnun og framleiðslu til enda líftíma hverrar vöru.
Adidas er leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki í íþróttavörum og velti € 23,6 milljörðum árið 2019 samkvæmt tilkynningu. Hjá fyrirtækinu starfa yfir 60 þúsund manns um heim allan. Síðustu fimm ár hefur sjálfbærni verið hornsteinn í stefnumörkum fyrirtækisins, en fyrirtækið hefur skuldbundið sig til að nota 100% endurunnið pólýester árið 2024 fyrir yfir milljarð vöruafbrigða sem framleidd eru árlega undir vörumerkinu Adidas.
Mikilvægt er að skrá sig á fundinn fyrir 24. mars - en allar upplýsingar má finna hér.