Studio 2020 - HönnunarMars miðlað með nýjum hætti á óvissutímum
HönnunarMars kynnir Studio 2020. Stjórnendur og skaparar eru Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi DesignTalks, Garðar Eyjólfsson, fagstjóri meistaranáms í hönnun við Listaháskóla Íslands, María Kristín Jónsdóttir, ritstjóri HA, Steinn Einar Jónsson, upplifunarhönnuður og Einar Egils, kvikmyndagerðarmaður með stuðningi Íslandsstofu.
Studio 2020 er tilraunavettvangur á HönnunarMars 2020, sem ætlað er að miðla efni hátíðarinnar á ýmsu formi á meðan á henni stendur og í kjölfarið.
Markmiðið er að veita innsýn í hugskot hönnuða, viðfangsefni og hugmyndir um framtíðina. Auk þess að hvetja til breiðs samtals um hönnun og arkitektúr. Efninu verður miðlað til ólíkra hópa, almennings sem og fagfólks, innanlands og erlendis.
Nú er rétti tíminn til þess að gera tilraunir með nýjar leiðir í miðlun hönnunar, umfram hinar hefðbundnu áherslur.
Dagskrá Studio 2020 samanstendur af fjölbreyttum viðtölum, beinum útsendingum og streymi, gjörningum og hlaðvarpi. Einn dagskrárliður Studio 2020 yfir hátíðina er spjallþáttur þar sem farið verður yfir sýningar og viðburði hátíðarinnar með vel völdum einstaklingum á meðan hátíðin stendur yfir. Því efni verður miðlað í samstarfi við Vísi og síðar aðgengilegt hér.
Fylgstu með HönnunarMars á samfélagsmiðlum og fáðu hönnun beint í æð! @designmarch