Sýningaropnun: Jarðsetning - óumflýjanlegt upphaf

Á sýningunni Jarðsetning – óumflýjanlegt upphaf rammar Anna María Bogadóttir inn sögur af manneskjum, umbreytingum og borg á stöðugum tímamótum. Ljósmyndir hennar hugfesta augnablik af aðdraganda og niðurrifi byggingar; frásagnir og myndbrot er framkalla hugrenningatengsl við fortíð, framtíð og okkar eigin persónulegu sögu.
Sýningin stendur yfir í Slökkvistöðinni Gufunesi 24. apríl – 4. maí 2025
Innan úr byggingunni blasa við voldugar steyptar súlur, fínlegur gluggastrúktúr, palisenderhurðir, furuloft, handgerðar blúndugardínur, þrifalegt gerviblóm í bónaðri gluggakistu, veggjakrot. Lágreist borgin lúrir fyrir utan.
Sögusviðið er stórhýsið Iðnaðarbankinn sem stóð í rúm 50 ár við Lækjargötu í Reykjavík. Í myndunum leika ljós og skuggar um yfirborð og efni sem bera vitni um alúð og metnað við að skapa fágaða umgjörð utan um skrifstofur framtíðarinnar. Byggingin var táknmynd framfara og ferskra strauma og var tekin í notkun árið 1962 þegar útlitið var bjart og Reykjavík að breytast í borg. Einungis rúmum fimm áratugum síðar var þessi gildishlaðna bygging rifin og látin víkja fyrir nýrri framtíð. Framtíð sem hefst í sérhverri andrá.
Viðfangsefni sýningarinnar kallast á við sýningarrýmið í Slökkvistöð Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi sem, líkt og bygging Iðnaðarbankans, reis um miðbik 20. aldar eftir teikningum arkitektsins Halldórs H. Jónssonar í anda framfaratrúar alþjóðlegs módernisma.
Verkinu Jarðsetningu hefur Anna María Bogadóttir fundið farveg í ólíkum miðlum á snertifleti arkitektúrs við aðrar listgreinar: Í gjörningi árið 2017, innsetningu og kvikmynd sem frumsýnd var 2021 og í samnefndu bókverki sem kom út árið 2022. Í bókinni, sem var meðal annars tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fléttast saman saga byggingar, saga borgar, saga hugmynda og saga höfundar. Á sýningunni í Slökkvistöðinni sýnir Anna María í fyrsta sinn seríu ljósmynda sem teknar voru á árunum 2015-2018, frá því þegar starfsemi bankans var að líða undir lok og fram yfir niðurrifsferli byggingarinnar. Á sýningunni eru einnig stillur og myndbrot úr kvikmyndinni, Jarðsetning.
Kvikmyndin Jarðsetning verður sýnd í rýminu laugardaginn 26. apríl kl. 16. Einar Falur Ingólfsson leiðir samtal við höfundinn að sýningu lokinni. Viðburðurinn er liður í dagskrá Bókmenntahátíðar í Reykjavík 2025: https://bokmenntahatid.is/stadsetningar/slokkvistodin-gufunes/
Sýningin Jarðsetning – óumflýjanlegt upphaf er frásögn endaloka stórhýsis á endastöð hugmynda um einnota byggingar en um leið umflýjanlegt upphaf nýrra aðferða og frásagna.
Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir arkitekt.

