Sýningin Öllum hnútum kunnug opnar í Listasafni Reykjavíkur
Öllum hnútum kunnug er þverfaglegt verkefni á mörkum hönnunar, myndlistar og arkitektúrs þeirra Brynhildar Pálsdóttur, Þuríðar Rós Sigurþórsdóttur og Theresu Himmer. Þúsund ára gamalt handverk kaðalsins er útgangspunkturinn og það notað til að kanna mörk þessara þriggja faga og táknræna vídd reipisins í norrænni samtímamenningu. Sýningin er upptaktur að HönnunarMars í maí 2021 og opnar í Listasafni Reykjavíkur núna á laugardaginn, 1. maí.
Efnislegur og hugmyndafræðilegur grunnur verkefnisins hverfist um tvær reipagerðir: Hampiðjuna í Reykjavík og Aarhus Possementfabrik í Danmörku. Báðar hafa þær starfað frá því snemma á 20. öld og framleitt reipi með hér um bil sama tækjakosti, en í gjörólíkum tilgangi: annars vegar fyrir betri stofuna, hins vegar fyrir úthafið. Þessir tveir ólíku heimar fá að skarast í meðförum listamannanna með ólíkum hnútum og óvæntum samsetningum sem setja ólíkar aðferðir og tilgang þessara tveggja reipagerða í forgrunn.
Verkefnið hófst árið 2017 þegar þær Brynhildur, Þuríður og Theresa hlutu styrk úr „Handmade“ sjóði Nordisk kulturfond. Stöllurnar eru búsettar um allan heim – í New York, Reykjavík og Kaupmannahöfn – þannig að þær hittust 1-2 sinnum á ári milli þess sem þær áttu í samtali yfir netið þar sem þær skiptust á skissum og hugmyndum. Þessi langi meðgöngutími gaf þeim tækifæri til að prófa fjöldamargar útfærslur og kafa djúpt ofan í allflókinn hugmyndaheim sem tengdi stássstofu Viktoríutímans við sjómennsku, hugmyndir um sviðsetningu heimilisins og tengslum rýmis við félagslegan veruleika, svo fátt eitt sé nefnt. Ýmislegt sem þær töldu tilheyra fortíðinni, svo sem afskermun rýma og innanhússskipulag Viktoríutímans, sem miðaði að því að stýra nánd í samskiptum, varð þeim ljóslifandi þegar heimsfaraldurinn skall á fyrir ári síðan með öllum sínum nándartakmörkunum. Afraksturinn – alls kyns munir, vídeóverk og efnistilraunir – er uppistaðan í sýningunni sem opnar í Listasafni Reykjavíkur 1. maí. Sýningin færist svo yfir í Norræna húsið þar sem hún verður yfir HönnunarMars, dagana 19. - 23.maí.
Öllum hnútum kunnug verður farandsýning. Nú þegar hefur verið gengið frá því að hún ferðist til Kaupmannahafnar og Stokkhólms í nánustu framtíð. Samhliða sýningunum kemur út, í hlutum, yfirgripsmikið bókverk. Þar verður meðal annars að finna rannsóknargögn, sérpantaðar ritgerðir og uppritaðar munnlegar frásagnir. Bókin verður fáanleg í völdum verslunum og sýningarrýmum.
Brynhildur Pálsdóttir er sjálfstætt starfandi hönnuður í Reykjavík. Hún útskrifaðist frá LHÍ 2004 og frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam 2005. Samstarf þvert á greinar, staðbundin hráefni og menning eru leiðarstef í verkum hennar. Meðal verkefna hennar eru Vík Prjónsdóttir, Stefnumót hönnuða og bænda, Leit að postulíni, Leirpotturinn og Súkkulaðifjöll. Verk og verkefni Brynhildar hafa verið sýnd víða, birst í alþjóðlegum tímaritum og bókum um hönnun.
Þuríður Rós Sigurþórsdóttir hefur starfað sem hönnuður og myndlistamaður frá því hún útskrifaðist frá Central Saint Martins College árið 2000 og School of Visual Art í NY árið 2008. Hún er ein af stofnendum Vík Prjónsdóttur sem hefur hlotið ótal viðurkenningar, styrki og umfjallanir. Hún hefur sýnt sína myndlist í Listasafni Reykjavíkur, Skaftfelli og galleríum í New York.
Theresa Himmer á að baki myndlistarnám frá Whitney Museum og School of Visual Arts í New York og arkitektanám frá arkitektaskólanum í Árósum. Verk hennar hafa verið sýnd víða á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, m.a. á Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Westfälische Kunstverein-Münster-Þýskalandi, Soloway Gallery og Art in General, New York. Hún hefur hlotið verðlaun og styrki frá m.a. Myndlistarsjóði Íslands, Statens Kunstfond (DK) og The American-Scandinavian Foundation.
Þær verða með leiðsögn um sýninguna laugardaginn 1. maí kl. 13. Meira hér fyrir neðan -