Tatiana Bilbao heldur fyrirlestur í Grósku 3. október
Þriðjudaginn 3. október kl. 17.00 mun Tatiana Bilbao, alþjóðlega þekktur og margverðlaunaður arkitekt frá Mexíkóborg, halda fyrirlestur í Grósku. Tilefnið er 20 ára starfsafmæli arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands og fyrsta útskrift meistaranema í arkitektúr á Íslandi.
Tatiana Bilbao hefur rekið eigin stofu í Mexíkóborg, Tatiana Bilbao Estudio, frá árinu 2004. Verk þeirra spanna vítt svið og hafa vakið verðskuldaða athygli. Þau leggja jafnan áherslu á þverfaglega nálgun viðfangsefnis, þar sem manneskjan og hennar félagslegu þarfir eru í fyrirrúmi, með það að markmiði að skapa arkitektúr sem er virðisaukandi fyrir nærumhverfið. Þau eru þekkt fyrir að setja fram hugmyndir sínar í handgerðum teikningum og módelum fremur en í tölvugerðum þrívíddarmyndum.
Þess má geta að Tatiana Bilbao verður með vikulanga vinnustofu með öllum nemendum í arkitektúr við LHÍ í byrjun október. Hún sinnir jafnframt kennslu við Yale University School of Architecture og hefur einnig kennt við Harvard University GSD, AA Association í London, Columbia University GSAPP, Rice University, University of Andrés Bello í Chile, og Peter Behrens School of Arts í Þýskalandi.
Viðburðurinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Fræðagarði auk fjölmargra íslenskra arkitektastofa.