Tvö hönnunarverkefni hljóta samfélagstyrki Landsbankans
Landsbankinn úthlutaði á dögunum samfélagsstyrki til 34 verkefna. Þar á lista er að finna tvö hönnunartengd verkefni frá Studíó Fléttu og Kristín Sigurðardóttir og Emilíu Borgþórsdóttur.
Þrjú verkefni hlutu styrk að fjárhæð 1 milljón króna, 17 verkefni hlutu 500.000 króna styrk og 14 verkefni fengu 250.000 króna styrk. Alls voru 15 milljónir veittar.
Studíó Flétta hlaut 500 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Íslenska glerið í samstarfi við Kristínu Sigurðardóttir, vöruhönnuð.
Íslenska glerið er samstarfsverkefni hönnunarstofunnar Fléttu og Kristínar Sigurðardóttur. Þau fá styrk til að rannsaka möguleika á endurvinnslu steinullar í nýtt hráefni. Byggist verkefnið á útskriftarverkefni Kristínar þar sem hún umbreytti steinull á þann veg að hún minnir einna helst á hrafntinnu.
VE 123, Fræ til stærri afreka, verkefnið hönnuðarins Emilíu Borgþórsdóttur hlaut einnig 500 þúsund króna styrk.
Tugþúsundir þátttökuverðlauna úr plasti og ódýrum málmum eru gefin á hverju ári í tengslum við íþróttaviðburði. VE 123 fær styrk til að hanna verðlaun úr lífrænum efnivið með fræjum í sem má svo grafa í jörðu þar sem þau brotna niður og upp vex falleg planta.
Rúmlega 500 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Samfélagsstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja mannúðar- og líknarmál, menntamál, rannsóknir og vísindi, forvarna- og æskulýðsstarf, umhverfismál og verkefni á sviði menningar og lista.
Dómnefnd samfélagsstyrkja var skipuð þeim Ármanni Jakobssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Felix Bergssyni leikara og Guðrúnu Agnarsdóttur lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.
Hægt er að skoða heildarlistann hér.