Umhverfishönnun með Marco Antonio Maycotte og Páli Jakobi Líndal

Á þriðjudagsfyrirlestri AÍ, þriðjdaginn 7. mars, munu Marco Antonio Maycotte, arkitekt og Páll Jakob Líndal, umhverfissálfræðingur, miðla af þekkingu sinni og reynslu af umhverfishönnun.
Marco Antonio rekur fyrirtækið LOCO í Danmörku. Marco er margverðlaunaður mexíkóskur arkitekt sem hefur sérhæft sig í umhverfishönnun. Hann hefur unnið töluvert með BIG-Bjarke Ingels Group. Í fyrirlestrinum mun hann fjalla um sína framtíðarsýn á borgarhönnun.
Páll Jakob Líndal er með doktorspróf í umhverfissálfræði frá Háskólanum í Sydney. Hann er sérfræðingur í mati á sálfræðilegum áhrifum umhverfis á heilsu og vellíðan, hvort um er að ræða náttúru eða byggt umhverfi. Hann er annar eiganda fyrirtækisins ENVALYS sem leggur áherslu á hagnýtingu tölvutækninnar til rannsókna í umhverfissálfræði. Páll hefur áralanga reynslu af skipulagsmálum og verkefnum er snúa að verndun byggingararfsins, s.s. uppmælingum og gerð húsakannana.
Endurheimtandi umhverfishönnun í sýndarveruleika - er fyrirlestur Páls en þar mun hann fjalla um hvernig við getum nýtt hina öflugu tölvutækni sem fyrir hendi er til að hjálpa okkur að skilja betur samspil fólks og umhverfis. Aukinn skilningur leiðir til betri og upplýstari hönnunar og skipulags - manneskjulegra umhverfis
Hvar: Fyrirlesturinn fer fram í Grósku, í fyrirlestrarsalnum Fenjamýri (gegnt Veru mathöll).
Hvenær: Þriðjudaginn 7. mars kl. 20.00.


