Börnin að borðinu er Verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024
Börnin að borðinu eftir Þykjó er verðlaunahafi í flokknum Verk á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024 fyrir að vera frumlegt og áhugavert dæmi um hvernig hægt er miðla hugmyndum barna og ungmenna að alvöru og virðingu með að leiðarljósi að gefa þeim rödd og virkja til áhrifa.
Rökstuðningur dómnefndar:
Ímyndunarafli og sköpunarkrafti barna og ungmenna eru fá takmörk sett — ef þau fá á annað borð tækifæri til þess að sleppa þessum kröftum lausum. Með verkefninu Börnin að borðinu er þeim gefin rödd og mikilvægasta fólkið þannig virkjað til alvöru áhrifa í gegnum það sem þau eru sérfræðingar í — sköpun og leik.
Hönnunarteyminu Þykjó tekst með frábærri nálgun sinni að fanga hugmyndir og smíða úr þeim tillögur að lausnum geta orðið að veruleika. Verkefnið krefst hvort tveggja hugrekkis og trausts því oft er ekki hlustað á börn þó að við heyrum vissulega flest hvað þau segja. Eins er takmörkuð hefð fyrir því að hugmyndum barna og ungmenna sé miðlað af alvöru og virðingu og unnið markvisst að því að hrinda þeim í framkvæmd. Í verkefni Þykjó er börnum liðsinnt við að hugsa praktískt, hvort sem það á við um leiksvæði eða ruslatunnur. Leikurinn er ávallt í forgrunni auk samveru, náttúru og fegurðar, vegna þess að börn vilja gjarnan blanda geði og þau vilja betri heim öllum til handa.
Það er fagnaðarefni og fordæmisgefandi að hönnun sé notuð til að efla samtal og skilning, m.a. þegar bæjarfélag deilir áformum sínum og draumum um framtíðina með börnum og kallar eftir samstarfi við þau. Þetta var hluti af virku samráði um nýtt rammaskipulag fyrir Ásbrú sem var samstarfsverkefni Kadeco og Reykjanesbæjar og unnið af Alta. Börn og ungmenni eru virkur og dýrmætur hluti samfélagsins og það þarf að gera ráð fyrir sjónarmiðum þeirra og þörfum.
Rammaskipulag er í hugum flestra býsna tyrfið hugtak og flókið viðfangsefni. Það er því ærin áskorun að miðla því til barna og virkja þau til þátttöku og samtals. Með vel ígrunduðum aðferðum og útsjónarsemi hefur Þykjó tekist vel upp. Verkefnið Börnin að borðinu sýnir hvernig hægt er að fá fram sjónarmið barna um flókin og viðamikil mál ef vilji er fyrir hendi. Mögulegt er að nýta verkefnið sem fyrirmynd á fleiri sviðum þar sem raddir barna og ungs fólks ættu að heyrast.
Hvaða merkingu leggja börnin í Reykjanesbæ í flókið rammaskipulag hvað varðar staði og svæði sem þau langar að dvelja í og deila með öðrum? Þykjó tekst með lunkni og hugvitssamlegri hönnun að setja upplýsingar fram á skýran og skemmtilegan máta sem allt í senn fræðir, valdeflir og virkjar þátttakendur. Verkefnið er framúrskarandi og góð fyrirmynd sem sveitarfélög geta sótt í, og það sýnir gildi þess að tryggja þátttöku barna í skipulagsverkefnum enda mikilvægt að sem flestar raddir fái að heyrast og hafa áhrif á mótun hins byggða umhverfis.
Hlustun og virkni í gegnum sköpun og leik virkja krafta allra kynslóða — og við þurfum á ímyndunarafli að halda til að skapa spennandi og sjálfbæra framtíð. Þykjó tekst að fanga hugmyndir fólksins sem sannarlega býr yfir einna mestu af slíku afli og smíða úr þeim áætlun þar sem tillögur að lausnum gætu vel orðið að veruleika. Það er síðan í höndum Reykjanesbæjar að hrinda þeim í framkvæmd.
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 7. nóvember og þetta er ellefta árið í röð sem verðlaunin eru veitt.
Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er leitað að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.
Það var Halldór Eiríksson arkitekt og eigandi hjá T.ark arkitektum sem veitti hönnunarteyminu Þykjó verðlaunin.
Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.