Smiðja, skrifstofubygging Alþingis er Staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024
Smiðja, skrifstofubygging Alþingis eftir Studio Granda er verðlaunahafi í flokknum Staður á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024 fyrir arkitektúr í hæsta gæðaflokki sem ber íslensku hugviti og handverki glæsilegt vitni.
Rökstuðningur dómnefndar:
Smiðja sameinar á einum stað fundaaðstöðu og skrifstofur þingmanna og starfsfólks Alþingis í fimm hæða byggingu á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis í Reykjavík. Hönnun var í höndum arkitektastofunnar Studio Granda, í kjölfar samkeppni sem haldin var árið 2016.
Form byggingarinnar og gluggasetning eru við fyrstu sýn látlaus en steinklæðningin dregur að sér athygli og vísar í jarðsögu landsins og menningarminjar sem finna má í Kvosinni. Borðaklædd sjónsteypa og steinn, sýnileg utan- sem innanhúss, eru meðal höfundareinkenna Studio Granda. Þegar inn er komið eru þessi einkenni enn meira áberandi, sér í lagi á fyrstu hæð þar sem nefndastörf þingsins fara fram og gestagangur er sem mestur. Grjótið gegnir aðalhlutverki í útliti hússins að utan og víða á veggjum og í gólfi innanhúss. Allt grjót sem notað er í byggingunni hafði orðið aflögu við aðrar framkvæmdir og þess vegna þurfti ekki að sækja það sérstaklega í námu.
Listaverk eftir Kristin E. Hrafnsson er fellt inn í húsið við aðalinnganginn og verk eftir Þór Vigfússon er í lofti í forsal. Yfirbragð er mildara á efri hæðum í vinnurýmum þingmanna og starfsfólks Alþingis þar sem aukin áhersla er á eik og fleiri litir eru notaðir. Að því marki sem hægt er í svo þétt setinni byggingu, er unnið með sveigjanleika, hvort sem er með því að sameinina sali eftir þörfum eða með hreyfanlegum léttari veggeiningum milli skrifstofa.
Arkitektarnir leggja áherslu á íslenskan efnivið og handverk og mikil alúð hefur verið lögð við hvort tveggja hönnun og smíði. Húsgögnin eru hönnuð af arkitektum hússins fyrir utan endurnýjuð íslensk húsgögn úr safni Alþingis og stóla eftir Erlu Sólveigu Óskarsdóttur, framleidda hjá Á. Guðmundssyni.
Smiðja er borgarhús í hæsta gæðaflokki sem ber íslensku hugviti og handverki glæsilegt vitni.
Byggingin er lýsandi fyrir þróun höfundaverks Studios Granda, þar sem áherslur eru á borðamynstraða steinsteypta fleti, íslenskar steintegundir og eik. Hér sýna þau Margrét Harðardóttir og Steve Christer hve gott vald þau hafa á fagi sínu með því að sýna ögun og fylgja hönnuninni eftir niður í fínustu smáatriði í samspili steypu og steins. Eins gera þau sér að óvæntum leik að fara eftir heimatilbúnum reglum: svo sem að snúa gólfmynstri og rimlaverki á veggjum og í lofti ávallt í norður/suður stefnu í gegnum allt húsið; með því að tappar í kónagötum eru úr sama efni og gólflagningin í hverju rými; eða með því að láta lagskiptingu steinklæðninga innanhúss fylgja línum og gerðum klæðninganna utanhúss. Niðurstaðan er bygging sem í senn ber vott um mikla ögun og hönnunarástríðu.
Verkið er afrakstur opinnar samkeppni á vegum AÍ og FSRE fyrir hönd Alþingis, og byggingin inniber flókna og krefjandi starfsemi. Frábær hönnun og góð framkvæmd skila saman heildstæðu hugverki og glæsilega útfærðu handverki, Alþingi Íslendinga, íslensku hönnunarsamfélagi og íslensku þjóðinni allri til sóma.
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 7. nóvember er þetta ellefta árið í röð sem verðlaunin eru veitt.
Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er leitað að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.
Það var Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem veitti Studio Granda arkitektum verðlaunin.
Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.