Krónan hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2024
Krónan hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024 og er til fyrirmyndar í margvíslegu samstarfi sínu við hönnuði, þar sem rauði þráðurinn er aukin umhverfisvitund og sjálfbærni.
Rökstuðningur dómnefndar:
Krónan er til fyrirmyndar í margvíslegu samstarfi sínu við hönnuði. Það byggir á ríkulegri hugmyndauðgi og framsýni í umhverfismálum sem snýr m.a. að endurvinnslu og ýmis konar nýtingu hliðarafurða og afganga.
Krónan rekur alls 26 matvöruverslanir um land allt, þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt úrval og ferska vöru. Fyrsta Krónuverslunin var opnuð árið 2000. Krónan hefur sýnt mikinn vilja til stöðugra umbóta og leitar iðulega eftir samvinnu við viðskiptavini sína, birgja og þjónustuaðila um skref að grænari framtíð.
Krónan hefur frá árinu 2019 átt í samstarfi við marga leiðandi íslenska hönnuði, þar sem rauði þráðurinn er aukin umhverfisvitund og sjálfbærni. Þannig er neytendum auðveldað að gera umhverfisvænni innkaup, til að mynda með því að gera þeim flokkun umbúða þægilegri og bjóða upp á fjölnota poka og pappakassa, auka aðgengi að vatnspóstum til áfyllingar og með því að koma fyrndum varningi í lóg með niðursettu verði eða nýta hann sem hráefni í gróðuráburð. Allt er sett fram á skýran, einfaldan og ekki síður skemmtilegan hátt, sem ber hæfileikum hönnuðanna sem Krónan hefur valið sér til samstarfsins glöggt vitni.
Þá eru ótalin fordæmisáhrif slíkrar markaðssetningar auk fræðslugildis hennar, en í verslunum Krónunnar og á vef hennar má finna ýmsan fróðleik viðvíkjandi umhverfisvernd og meðvitaðri neyslu. Fordæmið felst ekki síður í því að standa með þeirri ákvörðun sinni að starfa með íslenskum hönnuðum, hönnunarnemum og -stúdíóum á borð við Studio Fléttu, Plastplan, Meltu og nemendur Listaháskóla Íslands.
Heildarsvipmót Krónunnar, sem unnið er í samstarfi við Brandenburg, vekur einnig eftirtekt. Krónunni hefur heppnast einstaklega vel að viðhalda heildarútliti vörumerkis síns og er það sama hvort um er að ræða smáforrit, auglýsingar, pakkningar, merkingar eða upplifun í verslunum.
Það er mat dómnefndar að fjárfesting í samstarfi af þessu tagi hafi margfeldisáhrif sem eru dýrmæt samfélaginu öllu, enda er í henni fólginn víðtækur samfélagsábati, heilmikið fjör og viðurkenning á gæðum og áhrifamætti íslenskrar hönnunar.
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 7. nóvember og er þetta ellefta árið í röð sem verðlaunin eru veitt.
Viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun var veitt í fyrsta sinn 2015 og er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun og arkitektúr að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Það var Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins sem veitti viðurkenninguna.
Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.