Peysan James Cook er Vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024
Peysan James Cook, unnin í samstarfi Helgu Lilju Magnúsdóttur fatahönnuðar og Stephan Stephensen listamanns, fyrir BAHNS, er verðlaunahafi í flokknum vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024 fyrir að vera frábært dæmi um hvernig góð hönnun getur haft jákvæð félagsleg áhrif.
Rökstuðningur dómnefndar:
Peysan James Cook er frábært dæmi um hvernig góð hönnun getur haft jákvæð félagsleg áhrif. Með tímanum hefur orðið til samfélag unnenda James Cook peysunnar sem með réttu má kallast nútímaklassík í íslenskri hönnun. Tekist hefur að skapa einkennandi mynstur heim sem sækir innblástur í ljósmerki siglingabaujanna sem leiðbeina sjófarendum, en mynstrið er jafnframt að finna í sundfatnaði BAHNS og ýmsum öðrum prjónaflíkum. Peysan hentar öllum kynjum og aldurshópum og er framleidd í takmörkuðu upplagi og mismunandi litaútfærslum og því felst í henni ríkt söfnunargildi.
BAHNS fellur undir skilgreiningu hægtísku og fer ekki að dæmi tískuiðnaðarins um að setja stöðugt nýjar vörur á markað. Prjón er í eðli sínu umhverfisvæn aðferð við að framleiða fatnað þar sem litlu hráefni er sóað. Hönnun og gerð peysanna miðar einnig að löngum líftíma þeirra og góðri endingu.
Peysan James Cook er gott dæmi um framúrskarandi íslenska hönnunarvöru sem hafin er yfir síkvika strauma tíðaranda og hugsuð er og framleidd fyrir íslenskan veruleika og veðurfar. Hönnun og framleiðsluferli hefur verið gefið mikið vægi, svo að úr verður vönduð og persónuleg flík sem endist vel
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 7. nóvember og er þetta ellefta árið í röð sem verðlaunin eru veitt.
Hönnunarverðlaun Íslands eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er leitað að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.
Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.