„Ég skil ekki þessa áráttu að kollvarpa því sem menn hafa gert hér á undan okkur“

14. janúar 2021
Myndir/Ari Magg

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hlaut, fyrstur manna, heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2019. Hér má lesa viðtal við Manfreð eftir Martein Sindra Jónsson sem birtist af því tilefni í tíunda tölublaði tímaritsins HA. Manfreð hefur markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi og spannar einstakur starfsferill hans yfir 60 ár.

„Ég tel mig hafa verið ákaflega heppinn að detta í þennan lukkupott sem heitir byggingarlist. Mér finnst ég hafa fundið mig þar. Þetta er nú eitthvað sem maður sér aldrei fyrir, á hvaða bás maður eigi eftir að rata.“ 

„Faðir minn var smiður, ég ætlaði að verða smiður. En svo villtist ég af braut eins og maður segir,“ Manfreð, sem er fæddur 1928, fór sjóleiðina til náms í Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg haustið 1949.

„Sveitamaður eins og ég, mín taska, hún var krossviðartaska sem faðir minn smíðaði. Hún segir ansi mikið um tíðarandann þá.“ Manfreð var samskipa Vigdísi Finnbogadóttur sem lýsir ferðalöngunum svo: „Við vorum kynslóð tveggja stórra áfanga í sögu þjóðar; Alþingishátíðarinnar 1930 og stofnunar lýðveldis 1944 og jafnframt vorum við æska eftirstríðsáranna, sem þóttist þora að leggja sitthvað undir til að kynnast því sem menn í útlöndum kunnu betur en við.“

Myndir/Ari Magg

Lítt troðnar brautir

„Ég hef reynt að kynna mér þá starfsemi sem er hugsuð í húsinu hverju sinni og að kynnast eiganda. Að reyna að fella þetta að umhverfinu, ég hef reynt að leggja áherslu á það. Ég held það megi lesa þessa sýn úr ýmsum verkum sem ég hef gert,“ segir Manfreð og tekur sem dæmi Fuglasafn Sigurgeirs Stefánssonar í Ytri-Neslöndum í Mývatnssveit þar sem hugað er vandlega að samspili mannvirkis og umhverfisins. Manfreð fór snemma að ryðja lítt troðnar brautir í íslenskri byggingarlist, ekki síst í vali lita og samspili þeirra við efnivið bygginga og eru verk hans afar fjölbreytt, allt frá húsbyggingum og skipulagi í Fossvogi og Skálholti til framúrstefnulegra drive-in bensínstöðva sem settu svip sinn á Reykjavík og Akureyri, opinberra bygginga svo sem Þjóðarbókhlöðunnar og Árbæjarkirkju, ýmissa íbúðarhúsa, húsgagna og hönnunargripa, svo fátt eitt sé nefnt.

Margir mikilvægir þræðir í list Manfreðs eru greinanlegir á heimili hans á Álftanesi. Lita- og efnisnotkun er vönduð og ígrunduð og japönsk áhrif einkenna látlausa innri gerð hússins þar sem létt skilrúm og rennihurðir aðskilja íverustaði fjölskyldunnar. „Hér snúa gluggar í suðurátt, hér út á tún og út á sjó hér fyrir sunnan en norðurhliðin er alveg lokuð og eiginlega gluggalaus. Mér fannst alltaf að þetta væri eins og hross út í haga, sem snýr afturendanum upp í vindinn. Eins og þú sérð hestana sem eru hér á beit hérna fyrir framan okkur.“ Í þessu kristallast ef til vill ákveðið viðhorf Manfreðs sem Halldóra Arnardóttir hefur lýst með orðum Þorsteins Gylfasonar, „að hugsa á íslensku“, og er fólgið í því að „laga hugmyndir sem [Manfreð] hafði mótað sér á erlendri grund að íslenskum aðstæðum og menningu landsins“. Enda fer Manfreð ekki í grafgötur með mikilvægi þess að íslenskir arkitektar sæki sér menntun erlendis, hann telur mikilvægt að í fámennu samfélagi eins og á Íslandi fari þeir sem leggja stund á arkitektúr utan og víkki þar með sjóndeildarhring sinn.

Nýtingarhugsun

Þegar talið berst að byggingarlist í samtímanum viðrar Manfreð efasemdir um gildi þess að rífa eldri byggingar til að rýma fyrir nýjum.  „Ég skil ekki þessa áráttu að kollvarpa því sem menn hafa gert hér á undan okkur.“ Hann vitnar til orða Halldórs Laxness um að menningarstig þjóðar megi sjá af stöðu byggingarlistar hennar og segir að þó menn geti haft ýmsar skoðanir á þeim húsbyggingum sem fyrir séu í landinu, þá sýnist honum að arkitektar mættu staldra aðeins við og virða verk liðinna kynslóða.

Slík nýtingarhugsun sést augljóslega í smæstu verkum Manfreðs sem mörg prýða heimili hans. „Ég held maður eigi að nota hlutina, finna hlutunum eitthvert annað sæti,“ segir hann um baðherbergisinnréttingu, fagurlega gerða úr gömlum kústsköftum. „Ég var svo elskur að öllum kústsköftum,“ segir hann sposkur. Það fer ekki á milli mála, fatahengið í forstofunni er sömuleiðis úr sama efnivið og þar inni má líka finna forláta hringlaga koll úr logsoðinni járngrind með rauðum lóðabelg úr þykku plasti fyrir sessu, hinn svokallaða Tónabæjarkoll. „Ástæðan fyrir þessu rugli í mér var góðum vini mínum að kenna sem hét Dieter Roth. Hann hafði orð á því að maður ætti að reyna að nota ýmsa fjöldaframleidda hluti í eitthvað annað en þeim er ætlað. Og hér er einn slíkur, þetta er bara belgur sem er notaður af sjómönnum.“ 

„Auðvitað er maður bara barn síns tíma,“ játar Manfreð fúslega en margt í verkum hans ber þó afar framsýnni hugsun vitni og eitt hefur varla breyst: „Þetta er eins og önnur störf, ef maður ætlar að ná einhverjum árangri, þá þarf maður virkilega að vinna í því, árum saman. Þetta er svolítil árátta, sjá hvað aðrir hafa gert og síðan reynir maður að moða einhvern þokkalegan hlut þarna.“

Vitnað er til orða Vigdísar Finnbogadóttur og Halldóru Arnardóttur í yfirlitsverkinu Manfreð Vilhjálmsson arkitekt þar sem finna má greinargóða umfjöllun um verk hans og störf.

Myndir/ Ari Magg

Frá dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2019

Hönnun og byggingar Manfreðs Vilhjálmssonar eru meðal bestu dæma um góðan arkitektúr á Íslandi en verkin bera vitni um vandaða hönnun og vandaðan arkitektúr þar sem efni, form og samhengi skapa eina órjúfanlega heild.

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi. Einstakur starfsferill sem spannar yfir 60 ár endurspeglar áræðni í fjölbreyttum verkefnum og metnaðarfulla listræna og faglega sýn. Eftir Manfreð liggur fjöldi tímamótaverka sem bera vott um einstaka hæfni til að takast á við margvíslegar áskoranir staðhátta og uppbyggingar í ungu samfélagi. 

Manfreð nam arkitektúr við Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg og lauk námi 1954. Eftir heimkomu 1956 var hann meðal brautryðjenda nýrra hugmynda í arkitektúr hér á landi. Í verkum Manfreðs birtast margvíslegar nýjungar í íslenskri húsagerðalist en jafnframt sýna verk hans frá fyrstu tíð næmi á umhverfi og viðleitni við að leysa verkefni í samræmi við tíðaranda og í skýru menningarlegu samhengi. 

Verkin sem Manfreð hefur komið að eru af ýmsu tagi en hann hefur komið að hönnun jafnt í þéttbýli sem og í strjálbýlli náttúru landsins. Í hverju verki er að finna hugvitsamlegar úrlausnir hvort sem sjónum er beint að húsgögnum, yfirbragði opinberra bygginga eða skipulagi byggðar. Áhersla á það hvernig unnið er með byggingarefni er eitt af leiðarstefum í byggingarlist Manfreðs og nýjar lausnir sem sprottnar eru af tilraunum með óvenjuleg efni, aðferðir og tækni er einkennandi í fjölmörgum verkum. 

Verkalisti Manfreðs er langur en meðal tímamótaverka hans má nefna afgreiðslustöðvar Nestis h.f.  (1957, nú rifin) en val og meðhöndlun byggingarefnis var eitt helsta nýnæmið í hönnun þessara bygginga. Einnig eigið íbúðarhús á Álftanesi, Smiðshús (1959-61) sem Manfreð vann að í samstarfi við Guðmund Kr. Kristinsson, þar sem áhersla var lögð á léttleika í uppbyggingu og opna rýmisskipan. Við hönnun þjónustubygginga Tjaldstæðis í Laugardal (1987-89) var spunnið í kringum menningararfinn og hann útfærður með nýjum byggingafræðilegum lausnum á eftirtektarverðan hátt. Skipulag Fossvogsbyggðar (1966), unnið í samstarfi við Guðmund Kr. Kristinsson og Gunnlaug Halldórsson, sem einkennist af lágreistri byggð í tengslum við grænt umhverfi dalsins er áhrifamikið fyrir borgarumhverfið og Þjóðarbókhlaðan (1972-94) sem hýsir lands- og háskólabókasafn, unnin í samstarfi við Þorvald S. Þorvaldsson er með eða þýðingarmeiri opinberu byggingum í borgarlandslaginu. 

Manfreð hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem Menningarverðlaun DV árin 1980 og 1988 auk heiðursviðurkenningar Menningarverðlauna DV árið 2009 fyrir framlag til íslenskrar byggingarlistar og Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1996. Umfjöllun um verk hans hefur birst í fjölmögum innlendum og erlendum fagritum. 

Árið 2009 kom út á vegum Hins íslenska bókamenntafélags bók tileinkuð verkum hans og starfsferli, sem Halldóra Arnardóttir listfræðingur og Pétur H. Ármannsson arkitekt ritstýrðu. Árið 2011 var Manfreð gerður að heiðursfélaga Arkitektafélaga Íslands.

Hönnunarverðlaun Íslands 2020 fara fram síðar í þessum mánuði með rafrænum hætti. Við teljum niður í opinberun tilnefninga ársins sem verður á næstu dögum.

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu.

Dagsetning
14. janúar 2021
Höfundur
Marteinn Sindri Jónsson
Ljósmyndir
Ari Magg

Tögg

  • Greinar
  • Arkitektúr
  • Hönnunarverðlaun Íslands
  • HA10
  • HA