Framtíðarbókasafn, miðbæjargarður, faldar perlur - samkeppnir, valferli og forval framundan
Í vikunni fóru af stað þrjár opnar hugmyndasamkeppnir, eitt valferli og ein forvalskeppni miðaðar að hönnuðum og arkitektum. Um er að ræða samkeppnir og valferli sem eru annars vegar í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og hins vegar við Arkitektafélag Íslands.
Opin hugmyndasamkeppni um skipulag Torfunefs á Akureyri
Hafnarsamlag Norðurlands bs í samvinnu við Akureyrarbæ og Arkitektafélag Íslands (AÍ) efnir til opinnar hugmyndasamkeppni um skipulag Torfunefs.
Meginmarkmið verkefnisins er að gera tillögu að lifandi hafnarhverfi með fjölbreyttri starfsemi á Torfunefi í hjarta Akureyrar. Leitað er eftir tillögu þar sem byggingar og almennarými hafa aðdráttarafli fyrir bæjarbúa, ferðamenn og rekstraaðila á ýmsum sviðum eins og ferðaþjónustu, veitingarkestur, verslanir, sýningarrými, vinnustofur og skrifstofurými svo eitthvað sé nefnd. Útirými mættu gjarnan gefa möguleika á viðburðum, s.s. útitónleikum, útimarkaði eða öðrum smærri uppákomum.
Frestur til 30.mars
Hugmyndasamkeppni um Miðbæjargarð í Mosfellsbæ
Mosfellsbær í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs efnir til opinnar hugmyndasamkeppni um nýjan bæjargarð og upplifunar- og áningarstað í miðbæ Mosfellsbæjar.
Tilgangur samkeppninnar er að skapa spennandi svæði í miðbænum sem íbúar og gestir eiga greiðan aðgang að. Nýjum miðbæjargarði og upplifunar- og áningarstað er ætlað að breyta hvort tveggja notagildi og ásýnd svæðisins með jákvæðum hætti.
Skilafrestur til 21. mars.
Óskað eftir teymi - Þróunaráætlun fyrir Gömlu höfnina í Reykjavík
Faxaflóahafnir sf í samstarfi við Arkitektafélag Íslands auglýsa eftir teymi til að vinna þróunaráætlun fyrir Gömlu höfnina í Reykjavík.
Áhugasamir skulu senda inn umsókn, að hámarki fjórar A4-blaðsíður, þar sem fram koma upplýsingar um teymið, fyrri verkefni, menntun, verkefnastjórnun, nálgun og hugmyndafræði sem teymið sér fyrir að leggja upp með í verkefninu. Ekki er ætlast til að sýndar séu tillögur að lausnum í umsókninni.
Skilafrestur til miðnættis 3. febrúar
Hönnunarsamkeppni um framtíðabókasafn miðborgarinnar
Reykjavíkurborg í samstarfi við Arkitektafélag Íslands efnir til hönnunarsamkeppni um endurhönnun á Grófarhúsi. Samkeppnin er hönnunar-og framkvæmdasamkeppni með forvali.
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur óskar eftir umsóknum arkitekta/hönnunarteyma til þátttöku í forvali. Forvalsnefnd fer yfir umsóknir sem berast og velur fimm teymi til þátttöku í samkeppni um breytingar og endurbætur á Grófarhúsi við Tryggvagötu sem á að hýsa framtíðarbókasafn miðborgarinnar.
Umsóknum í forval skal skilað fyrir kl. 12:00 á hádegi 10. febrúar 2022.
Hugmyndasamkeppni um skipulag á Breið - ,,Falin perla framtíðar"
Breið þróunarfélag f.h. Brim hf og Akraneskaupsstaður í samstarfi við Arkitektafélag Íslands býður til opinnar hugmyndasamkeppni um skipulag Breiðar á Akranesi.
Markmið samkeppninnar er að fá fagaðila til að leggja fram tillögur sem eru í samræmi við þá framtíðarsýn að svæðið verði íbúðabyggð fyrir ólíka aldurshópa í bland við atvinnusköpun með áherslu á hátækni, nýsköpun og sjálfbærni.
Skilafrestur tillagna 29. apríl.