HönnunarMars fyrir framtíðina
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 3. til 7. maí nk. og breiðir úr sér um alla borg. Rúmlega 100 sýningar og 120 viðburðir eru á dagskrá í ár og því ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi.
Hér eru nokkrir viðburðir sem velta fyrir sér framtíðinni út frá ólíkum nálgunum.
Into the universe of technical images
Á sýningunni verður skjánum á Hafnartorg Gallery umbreytt í stafrænt gallerý. Sex hönnuðir og listamenn munu skiptast á að taka yfir skjáina í mathöllinni og sýna verk sín. Verkin opna dyr inn í framtíðarlausnir stafrænnar hönnunar og listar og veltir upp sameiginlegum útlínum framtíðarinnar.
Fjárfestum í hönnun
Örerindi og pallborðsumræður um fjármagn. Hvernig fjárfestum við í hönnun og hvernig geta hönnuðir sótt sér fjármagn? Reynslumiklir einstaklingar úr heimi hönnunar og fjárfestinga deila sinni sýn, svara spurningum og taka þátt í umræðu um þetta mikilvæga viðfangsefni.
Meðal þeirra sem koma fram eru: Anders Färdig, CEO Design House Stockholm, Sigurður Þorsteinsson, Chief Design Officer, Design Group Italia, Ragna Margrét Guðmundsdóttir, Pikkoló, Helga Árnadóttir, CEO, Tulipop og Helga Valfells, Crowberry Capital. Fundarstjóri er Snorri Másson, fjölmiðlamaður.
Umræðurnar fara fram á ensku í nýju húsi Landsbankans við Reykjastræti 6. Sætaframboð er takmarkað og skráning nauðsynleg
21st-century pottery
Í samfélagi nútímans eyðir fólk meiri tíma í stafræna heiminum og í farsímum sem veldur því að það fjarlægist náttúruna. Hins vegar getur tæknin einnig fært fólk nær náttúrunni og veitt áður óþekkta upplifun. Á sýningunni má sjá einstaka muni á borð við vasa og potta, unna úr staðbundnum náttúrulegum íslenskum efnum í bland við endurunnið og óendurunnið plast með 21. aldar verkfærum á borð við þrívíddarprentara, gervigreind ásamt efnistilraunum.
Lækjartorg í FORTÍÐ OG FRAMTÍÐ
Lækjartorg í FORTÍÐ OG FRAMTÍÐ leiðir vegfarendur í gegnum lífið á torginu á myndrænan hátt, allt frá upphafi þess og alla leið til torgs framtíðarinnar. Sýningin fer fram í Pósthússtræti við Austurvöll.