ÚRSKURÐUR SIÐANEFNDAR
Í siðareglum Arkitektafélags Íslands eru birtar þær hugsjónir og meginreglur sem Arkitektafélags Íslands telur að arkitekt beri að hafa að leiðarljósi í sínu starfi. Innan félagsins er starfrækt siðanefnd þar sem félagsmenn sem og verkkaupar geta lagt fram kæru vegna brot á siðareglum félagsins. Siðanefnd tekur einungis afstöðu til þess hvort arkitekt hafi gerst brotlegur við siðareglurnar eða ekki og hvort brot telst ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt. Sé ágreiningur um málsatvik, sem úrskurð óhjákvæmilega verður að reisa á, skal vísa máli frá. Siðnefnd félagsins bárust tvö erindi á síðasta ári. Í öðru þeirra var lögð fram kæra og er hér hægt að nálgast upplýsingar um málsatvik og úrskurð siðanefndar.
Stjórn Arkitektafélags Íslands vísaði kæru VA Arkitekta (hér eftir nefndar: kærandi) á hendur Arkþing / Nordic (hér eftir nefndur: kærði) til siðanefndar AÍ þann 17. október 2022. Kæran er dagsett 11. október 2022
Kært er vegna brota á eftirfarandi:
- Fyrir brot á grein 2.2 þar sem segir að arkitektum beri að virða höfundarrétt annarra.
- Fyrir brot á grein 4.4. Arkitekt sem til er leitað af verkkaupa um að taka við verkefni úr hendi annars arkitekts, þar með talið að breyta eða auka við mannvirki, skal gera starfsbróður sínum viðvart svo honum gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna.
Kærð er sú háttsemi kærða að breyta/hylja höfundaverk kæranda sem hluta af því verkefni að hanna viðbyggingu við umrætt verk, án þess að hafa leitað til kæranda eftir samráði né samþykki.
Hin kærða háttsemi felst í að kærði tók að sér verkefni við að hanna viðbyggingu við Þjálfunarsetur Icelandair í Hafnarfirði, sem kærandi hafði hannað og framkvæmdum hafði lokið við árið 2016. Viðbyggingarverkefnið hlaut kærði í kjölfar lokaðrar samkeppni sem Icelandair stóð fyrir. Verkkaupi tilkynnti kæranda að ekki yrði samið við hann um stækkunina beint, heldur haldin samkeppni sem honum var boðið að taka þátt í, sem hann og þáði. Niðurstaða þeirrar samkeppni var sú að tillaga kærða varð hlutskörpust og var það tilkynnt þátttakendum. Fyrir liggur að framlagðar tillögur voru ekki gerðar opinberar. Þegar bygginganefndarteikningar eru samþykktar í bygginganefnd sér kærandi fyrst þá lausn sem fyrir liggur og vill meina að hún sé ekki bara viðbygging, heldur einnig algjör endurgerð á hönnunarverki hans.
Fylgiskjöl:
- Erindi VA Arkitekta dags. 11. október 2022.
- Póstur VA Arkitekta dags. 22. nóvember 2022 með nánari skýringum á erindinu, þar sem fram kemur mat á því hvaða grein siðareglanna hafi verið brotin (4.4).
- Vinnustaður framtíðarinnar -upplýsingar fyrir arkitekta, maí-júni 2021 (forvalsgögn Icelandair fyrir viðbyggingu)
Afgreiðsla Siðanefndar AÍ:
- Siðanefnd hélt fundi um málið í tölvupóstum og símtölum , 17. og 18. október og mat það efnislega eiga erindi fyrir nefndina, en skýringa væri þörf á ákveðnum atriðum, sjá að neðan.
- Siðanefnd sendi póst á kæranda 16. nóvember með fyrirspurnum og fékk svar 17. november til baka. 2
- Siðanefnd fundaði um málið í desember ásamt því að nefndarmaður ræddi við kæranda.
- Siðanefnd fundaði með kærða þann 24. janúar 2023
- Siðanefnd skilar úrskurði á fundi 06. febrúar 2023.
Úrskurður siðanefndar AÍ:
Atburðarás
Málsaðilagreinir ekki á um málsatvik, og á fundi 24.janúar staðfesti kærði að hafa ekki reynt að hafa samband við kæranda á neinu stigi málsins og bar því við að hann hefði talið kæranda full upplýstan um málið af hendi verkkaupa.
Siðanefnd óskaði eftir nánari skýringum á tveimur atriðum frá kæranda:
- Hvort erindið væri formleg kæra, en slíkt lá ekki ljóst fyrir af orðalagi erindisins.
- Hvaða efnisgrein Siðaregla AÍ kærandi teldi að hafi verið brotin.
Svör bárust með tölvupósti 17. nóvember frá kæranda, sem staðfesti að um kæru væri að ræða og að kærandi teldi að brotið væri gegn grein 4.4. Fram að því taldi Siðanefnd að málið varðaði við grein 2.2. Siðanefnd metur því hvort brotið hafi verið gegn annarri hvorri eða báðum greinunum.
Varðandi mögulegt brot kærða á grein 4.4:
Í siðareglum arkitekta er skylda arkitekta gagnvart öðrum arkitektum tvíþætt, og endurspeglast það í aðgreindum greinum 4.3 og 4.4. Arkitekt sem tekur við verki af öðrum arkitekt ber BÆÐI að ganga úr skugga um að „fyrra samningsambandi hafi lokið með eðlilegum hætti“ (gr.4.3) OG „gera starfsbróður sínum viðvart“ (gr.4.4). Óumdeilt er að kærði hafði ekki samband við kæranda á neinum stigum eftir að niðurstöður samkeppninnar lágu fyrir. Fyrir liggur hins vegar hvort tveggja, að í forvalsgögnum samkeppninnar kemur fram á bls.12: „Vakin er athygli á að útlit og innra skipulag núverandi bygginga er ekki bindandi fyrir nýja arkitekta til að ná fram heildarmynd“. Því mátti VA arkitektum vera ljóst að breyting gæti orðið á höfundarverki þeirra. Sömuleiðis er ljóst að kæranda var tilkynnt um niðurstöður samkeppninnar og var því ljóst, að fyrir lægi að byggja við mannvirkið, hver myndi gera það og að jafnvel yrði um breytingar á höfundarverki hans að ræða. Milda bæði þessi atriði alvarleika mögulegs brots kærða, enda verður að gera kröfur til aðila að þeir gæti hagsmuna sinna að einhverju marki sjálfir. Á móti kemur að þar sem innsendar tillögur í samkeppninni voru ekki birtar gat kærandi ekki vitað hvort, né hversu umfangsmikilar breytingar á höfundarverki kæranda yrðu. Sömuleiðis, eins og áður er getið, bar kærða að láta kæranda vita samkvæmt Siðareglum AÍ, enda honum ljóst að tillaga hans að húsinu var ekki gerð opinber öðrum þáttakendum eða kæranda með sannanlegum hætti. Telst kærði því brotlegur við grein 4.4.
Varðandi mögulegt brot kærða á grein 2.2:
Kjarni erindisins er meðferð kærða á höfundarrétti VA arkitekta þegar kemur að viðbyggingu við byggt verk VA arkitekta. Höfundarréttur er varin af lögum um Höfundarrétt og eru ágreiningsmál um hann þar af leiðandi sótt fyrir almennum dómstólum en ekki fyrir Siðanefnd Arkitektafélagsins, enda einungis fjallað um hann á almennum nótum í grein 2.2 í Siðareglum AÍ. Því getur siðanefnd ekki gerst dómari í mögulegum brotum sem hægt er að sækja fyrir dómstólum. Því mun nefndin ekki taka afstöðu til þess álitamáls. 3 Siðanefnd verður að horfa til þess hvaða upplýsingar kærandi hafði um málið, eða mátti vita um málið og þar af leiðandi hvort málsaðilar hafi getað gætt réttar síns gagnavart kafla 2 í siðareglum AÍ.
Þær upplýsingar sem aðilar höfðu voru raktar hér í kaflanum á undan.
Fyrir liggur að VA Arkitektar höfðu fulla vitneskju um fyrirhugaða hönnun og úthlutun þessa verkefnis til kærða auk þess sem fram kom í forvalsgögnum samkeppninnar. Því mátti VA arkitektum vera ljóst að breyting gæti orðið á höfundaverki þeirra að meira eða minna leiti og höfðu á öllum stigum tækifæri til að gæta hagsmuna sinna gagnvart verkkaupa og kærða.
Að því sögðu, þá þurfa arkitektar í AÍ að gæta sín sérstakleg, þegar þeir taka þátt í samkeppnum sem ekki eru á vegum AÍ, enda geta þeir ekki treyst því að form keppninnar tryggi samræmi við siðareglur AÍ, s.s. eins og með opinberri birtingu tillagna í kjölfar samkeppni. Í þessu tilfelli eru niðurstöður ekki kynntar með sýningu á tillögum, og því hefði kærði þurft að gæta að því sérstaklega að kynna áætlanir sýnar fyrir höfundum þess húss sem byggt er við. Hefði það verið í anda greinar 2.2. í Siðareglum AÍ að upplýsa kæranda um þær breytingar sem fyrirhugaðar væru á mannvirkinu í hönnunarferlinu og taka tilliti til sjónarmiða þeirra við vinnu verksins. Aftur gildir að kærandi hafði upplýsingar til að gæta hagsmuna sinna sjálfstætt, en Siðareglur hljóta engu að síður að setja ríkari skyldur á þann sem hannar breytingar, en á höfunda að vakta möguleg inngrip í verk sín. Telst kærði því brotlegur við grein 2.2
Niðurstaða:
Það er niðurstaða Siðanefndar að kærði hafi gerst brotlegur við bæði greinar 2.2. og 4.4 í siðareglum arkitekta. Brotið er metið ámælisvert og vegur þar á móti broti að kærandi hafði upplýsingar um verkið og möguleg áhrif þess á höfundaverk hans og hafði þar með tækifæri til að gæta hagsmuna sinna. Eftir stendur að aðgerðaleysi kærða verður að túlka sem brot á umræddum greinum.
Almennt ítrekar Siðanefnd að arkitektar í AÍ þurfa að gæta sín sérstakleg, þegar þeir taka þátt í samkeppnum sem ekki eru á vegum AÍ. Þeir geta ekki treyst því að form keppninnar tryggi samræmi við siðareglur AÍ, s.s. eins og með opinberri birtingu tillagna í kjölfar samkeppni.