Design Diplomacy, sendiherrar bjóða heim
Í fimmta sinn bjóða erlendir sendiherrar hönnuðum frá sínum heimalöndum að taka þátt í opnu samtali við íslenska kollega á HönnunarMars. Sendiherrarnir opna dyrnar að heimilum sínum og veita gestum einstakt tækifæri til þess að hitta hönnuði og sækja sér innblástur. Í ár bjóða sendiherrar Bandaríkjanna, Finnlands og Noregs gestum til sín til að skála og hlýða á óvænt og skemmtileg spjall hönnuða.
Design Diplomacy viðburðir eru framleiddir í samstarfi við Helsinki Design Week sem á hugmyndina. Sérsniðin spurningaspjöld eru notuð til þess að hefja hönnunarmiðaða umræðu og kryfja til mergjar innblástur, daglega rútínu og vinnuferli hönnuða.
Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðina. Búið er að loka fyrir skráningu á Design Diplomacy x USA
Anu Irene Laamanen, sendiherra Finnlands á Íslandi, býður arkitektnunum Miia-Liina Tommila (FI) og Arnhildi Pálmadóttur (IS) til sín í finnska sendiherrabústaðnum til að eiga áhugavert og óvænt samtal um hönnun, fimmtudaginn 4. maí frá kl. 12:00 - 14:00.
Miia-Liina Tommila (FI) er finnskur arkitekt og borgarskipulagsfræðingur. Hún rekur sína eigin stofu, Tommila Architects, í Helsinki auk þess að vinna á norsk-finnsku stofunni Kaleidoscope í Bergen og með arkitektahópinn Nordic Works Collective. Miia-Liina hefur m.a. sérhæft sig í stórum þverfaglegum byggingarverkefnum þar sem áhersla er lögð á notendamiðuð hönnunarferli auk borgarhönnunar og framtíðarsýn. Þessa dagana vinnur hún að þróun hringrása hönnunarferla og verkefna sem miða að því að stuðla að aukinni notkun lífrænna efna í arkitektúr.
Arnhildur Pálmadóttir (IS) arkitekt hefur frumkvöðlaviðhorf og þverfaglegan áhuga sem hún notar bæði til að takast á við hefðbundin hönnunarverkefni og tilgátuverkefni frá ýmsum sjónarhornum. Arnhildur hefur skrifað greinar og texta tengt nýsköpun-, tækni- og umhverfismálum í hönnun og mannvirkjagerð auk þess að halda fyrirlestra um málefnið. Hún sinnir einnig stundakennslu við hönnunardeild Listaháskóla Íslands. Auk þess að þróa tilgátuverkefni undir nafni sap arkitekta er Arnhildur nú framkvæmdastjóri fyrir íslenska hluta danska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager sem sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrásarhagkerfinu í byggingariðnaði.
Sendiherrabústaður Finnlands á Íslandi er á Hagamel 4, 107 Reykjavík. Skráning á viðburðinn fer fram HÉR.
Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi, býður Jørgen Tengesdal (NO) og Hafsteini Júlíussyni (IS) til sín í norska sendiherrabústaðnum til að eiga áhugavert og óvænt samtal um hönnun, föstudaginn 5. maí frá kl. 12:00 - 14:00.
Hafsteinn Júlíusson (IS) er innanhúss- og iðnhönnuður og annar stofnenda HAF STUDIO. HAF STUDIO er hönnurstofa sem tekur að sér fjölbreytt verkefni fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hönnun þeirra spannar frá hönnun veitingastaða, verslana og heimila. Undanfarið hafa einnig komið fjölmargar vörur og húsgögn frá stofunni sem eru svo í sölu í verslun þeirra HAF STORE. Verlsunin er staðsett fyrir neðan hönnunarstofuna við gömlu höfnina í Reykjavík.
Jørgen Tengesdal (NO) var í atvinnumennsku í fótbolta, m.a. með Viking FK í Stafangri þar sem hann spilaði með mörgum íslenskum fótboltamönnum. Hann er einn af stofnendum fyrirtækisins Eikund sem hefur það að markmiði að endurframleiða klassískar norskar hönnunarvörur og selja erlendis. Eikund var stofnað árið 2016 og hefur síðan þá framleitt fjölda af norskum hönnunarklassíkum frá sjötta og sjöunda áratugnum. Eikund hefur framleitt vörur eftir marga af frægustu hönnuðum Noregs og má þar m.a. nefna Fredrik A. Kayser, Torbjørn Afdal, Sigurd Resell, Sven Ivar Dysthe, Torbjørn Bekken og Arne Tjomsland. Eikund hefur það að markmiði að framleiða vörur sem endast og gerir miklar kröfur um gæði húsgagnanna. Það eykur einnig sjálfbærni þeirra. Vest.is er sölualiði Eikund á Íslandi.
Sendiráð Noregs á Íslandi er staðsett við Fjólugötu 17, 101 Reykjavík. Skráning fer fram HÉR.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi býður hönnuðunum Michael Hendrix (BNA) og Búa Aðalsteinssyni (IS) til sín til að eiga áhugavert og óvænt samtal um hönnun fimmtudaginn 4. maí frá kl. 15:00 - 16:30.
Michael Hendrix (BNA) er alþjóðlegur hönnunarstjóri og meðeigandi hönnunar- og nýsköpunarfyrirtækisins IDEO. Þar hefur hann unnið að fjölbreyttum verkefnum um heim allan, allt frá hlutum fyrir heimilið yfir í þjóðaröryggi. Samhliða hefur Michael starfað sem aðstoðarprófessor í viðskiptafræði við Berklee tónlistarháskólann. Fyrsta bókin hans Two Beats Ahead: What Musical Minds Teach Us About Innovation, sem hann skrifaði með Panos A. Panay, forseta GRAMMY verðlaunanna, fjallar um hvernig hönnuðir og tónlistarfólk hugsa á svipaðan hátt þegar kemur að sköpunarferlinu og hvernig má beita sömu nálgun í nýsköpun á öðrum sviðum. Í bókinni má finna viðtöl við tónlistarfólk á borð við Pharrell, T Bone Burnett og Björk.
Búi Aðalsteinsson (IS) er hönnuður og stafrænn leiðtogi þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar. Búi hefur rekið hönnunarstúdíóið Grallaragerðina samhliða kennslu við Listaháskóla Íslands. Hann hefur lagt áherslu á samfélag og umhverfi í sínum verkefnum. Búi hefur meðal annars starfað við uppbyggingu skapandi verkefna innan fangelsa á Íslandi, kortlagning á komu barna á flótta til Íslands, bættum tengslum við plöntur, bættri nýtingu á affallsafurðum úr grænmetisrækt og nýtingu skordýra í matvæli.
Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi er staðsett við Engjateiga 7, 105 Reykjavík. Skráningu á Design Diplomacy x USA er lokið.