DesignTalks 2022 - Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt og stofnandi s. ap arkitekta
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt, kemur fram á DesignTalks 2022, alþjóðlegu ráðstefnunni og lykilviðburði HönnunarMars, sem varpar ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr getur tekið þátt í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga.
Arnhildur og s. ap arkitektar vinna bæði hefðbundin arkitekta- og hönnunarverkefni en einnig speculative (tilgátu) rannsóknarverkefni þar sem farið er framhjá núverandi kerfum og horft til tækni framtíðarinnar með það að markmiði að þróa nýjar aðferðir tengdar mannvirkjagerð á tímum loftslagsbreytinga. Í rannsóknarverkefnum sínum leggur stofan áherslu á að þróa verkefni sín í gegnum frásagnir og sögur en þar er hægt að hunsa núverandi kerfi og kanna nýstárlegar og framsæknar lausnir framtíðarinnar. Þessi blanda af raunverulegum og tilgátu verkefnum skapa áhugavert samtal og þróunarverkefni sem eru ekki bundin við fyrirfram ákveðnar hugmyndir, reglur eða niðurstöðu, þannig hafa öll verkefni nýsköpunargildi. Stofan vinnur nú að sýningu á verkefni sínu Lavaforming sem sýnt verður á HönnunarMars 2022 en verkefnið byggir á sögum og þverfaglegum rannsóknum á hrauni og hraunflæði og hvernig það hefur mótað yfirborð jarðar í milljarðar ára. Á sögulegum tíma hefur verið litið á hraun sem eyðileggjandi afl en í verkefninu skoðum við möguleika þess sem byggingarefni. Lavaforming er verkefni hátæknisamfélags sem hefur sagt skilið við gróðrahámörkun og er því frjálst að rannsaka nýskapandi og framsæknar lausnir. Hluti af sýningunni er breyttur tölvuleikur þar sem Lavaforming-heimurinn hefur verið settur inn þannig að fólk geti upplifað hann í gegnum tölvuleikjatækni.
„Við erum komin á þann stað, með tilliti til loftslagsbreytinga að við neyðumst til að ímynda okkur heim sem lítur öðruvísi út en sá sem við þekkjum, þar sem notaðar eru aðrar aðferðir og hugmyndafræði.”
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 með BA gráðu í arkitektúr. Áður hafði hún unnið á verkfræði- og arkitektastofum á Íslandi og í Noregi, meðal annars við þrívíddarvinnslu og hönnun. Eftir BA námið hóf hún nám við Barcelona School of Architecture - ETSAB en lauk síðar meistargráðu frá Institute for Advanced Architecture of Catalonia. Arnhildur hefur reynslu af verkefnisstjórnun í stórum og krefjandi verkefnum. Hún hefur frumkvöðlaviðhorf og þverfaglegan áhuga sem hún nýtir til að takast á við verkefnin frá ólíkum sjónarhornum samhliða því að þróa hagkvæmar og umhverfiisvænar aðferðir í þeim verkefnum sem hún tekur að sér. Arnhildur hefur skrifað greinar og texta tengt nýsköpun-, tækni- og umhverfismálum í hönnun og mannvirkjagerð auk þess að halda fyrirlestra um málefnið. Hún er einnig stundakennari í meistaranámi í hönnun við Listaháskóla Íslands.
DesignTalks 2022 snýr aftur á dagskrá þann 4. maí í Silfurbergi í Hörpu og stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir og kynnir verður Marcus Fairs, ritstjóri og stofnandi ein virtasta hönnunarmiðils í heimi í dag, Dezeen, sem tengir samtalið alþjóðlegu samhengi og dregur fram mikilvægi þess fyrir breiðari hóp.
Dagskrá dagsins verður ferðalag um fornar aðferðir, seiglu, handverk og frumbyggja visku, um tilraunir til endurhugsunar núverandi kerfa, viðbragð við krísuástandi, hönnun upplýsinga, tækni og gagnalæsi yfir í útvíkkaða raunveruleika og spáhönnun sem dregur upp framtíðarmyndir til að spegla og rýna samtímann.
„Þetta verður hátíð ímyndunaraflsins - og stund íhugunar.”
- Hlín Helga, stjórnandi DesignTalks.
Búið er tilkynna þau Gabriela Sánchez y Sánchez de la Barquera, sköpunarstjóra, Aamu Song og Johan Olin, listamenn og hönnuði hjá Company, Anders Lendager, arkitekt, framkvæmdastjóra og stofnanda Lendager Group, Liam Young, leikstjóra og sci-fi arkitekt, Giorgiu Lupi, upplýsingahönnuð og partner hjá Pentagram, Stefán Laxness, arkitekt og fræðimann og Valdís Steinarsdóttir, hönnuð.
Það stefnir í fjölbreyttan dag í Hörpu þann 4. maí - fylgstu með hér er við tilkynnum hverjir fleiri koma fram á DesignTalks 2022.
DesignTalks er lykilviðburður HönnunarMars hátíðarinnar sem í ár breiðir úr sér um höfuðborgarsvæðið dagana 4. - 8. maí!