DesignTalks 2023 - Michael Hendrix, alþjóðlegur hönnunarstjóri og meðeigandi IDEO
Michael Hendrix, alþjóðlegur hönnunarstjóri og meðeigandi IDEO, kemur fram á DesignTalks 2023 í Hörpu miðvikudaginn 3. maí.
Sama hvaða skapandi miðil er verið að fást við, þá er ferlið og hugarfarið alltaf það sama. Þegar þú áttar þig á því hvernig sköpun virkar þá getur þú alltaf skapað skilyrði fyrir nýsköpun, ekki bara í listinni, heldur í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.
Michael Hendrix er alþjóðlegur hönnunastjóri og meðeigandi hönnunar- og nýsköpunarfyrirtækisins IDEO. Þar hefur hann unnið að fjölbreyttum verkefnum um heim allan, allt frá hlutum fyrir heimilið yfir í þjóðaröryggi. Samhliða hefur Michael starfað sem aðstoðarprófessor í viðskiptafræði við Berklee tónlistarháskólann. Fyrsta bókin hans Two Beats Ahead: What Musical Minds Teach Us About Innovation, sem hann skrifaði með Panos A. Panay, forseta GRAMMY verðlaunanna, fjallar um hvernig hönnuðir og tónlistarfólk hugsa á svipaðan hátt þegar kemur að sköpunarferlinu og nýsköpun. Í bókinni má finna viðtöl við tónlistarfólk á borð við Pharrell, T Bone Burnett og Björk.
Michael á að baki langan og fjölbreyttan feril og hefur m.a. starfað við grafíska hönnun, markaðssetningu, vöru- og vörumerkjaþróun, kennslu og framkvæmdastjórn. Michael er frumkvöðull í eðli sínu og hefur m.a. komið að stofnun ólíkra námsleiða í listgreinum á ólíkum námsstigum, stofnað hönnunarvettvang og fyrirtæki í tónlistargeiranum. Nýjasta fyrirtæki hans, Tricycle, hefur hlotið sérstaka athygli Business Week, Fortune og hjá hönnunarsafni Smithsonian Cooper-Hewitt fyrir að vera leiðandi í hugsun í sjálfbærri hönnun.
DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.