Minn HönnunarMars - Greipur Gíslason
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Greipur Gíslason, ráðgjafi og fyrrum stjórnandi HönnunarMars deilir hvaða sýningum hann ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
„Það eru margar leiðir til að upplifa HönnunarMars. Frá upphafi má segja að ég hafi nálgast hátíðina með All In-aðferðinni. Hún krefst þess að fólk annað hvort losi sig úr vinnu og frá öðrum verkefnum meðan á hátíðinni stendur, og helst daginn eftir að henni lýkur, eða sem kannski ekki allir geta hreinlega gera HönnunarMars-þátttöku að atvinnu. Ég hef prófað báðar aðferðirnar.
Hvort sem fólk beiti All In–aðferðinni eða öðrum nálgunum er alltaf til bóta að skipuleggja sig aðeins. (Nauðsynlegt reyndar í All In.) Ekki síst nú á dögum þegar takmarkanir geta valdið því að viðburðir hreinlega fyllist.
Í ár ákvað ég að byrja á að skipuleggja þéttan HönnunarMars-laugardag og deili honum glaður hér.“
Hægt verður að fylgjast með öðru sem Greipur og Sara Jónsdóttir gera á HönnunarMars með því að fylgja myllumerkinu #jointexdirectorsprogram á samfélagsmiðlum.
Fylgið okkur
Ég ætla að hefja daginn í miðju höfuðborgarinnar. Ásinn stoppar mjög nálægt Gerðarsafni í Kópavogi. Safnið opnar kl. 10 en við megum engan tíma missa og því mæti ég uppúr 9 og sest á nýoppnað kaffihús Reykjavík Roasters á jarðhæð safnsins. Með því verð ég til í slaginn.
Á Gerðarsafni hefur HönnunarMars-sérfræðingurinn Sara Jónsdóttir stýrt sýningunni Fylgið okkur. Á sýningu Söru teflir hún fram spennandi hönnuðum sem eru kannski ekki að stíga sín fyrstu skref en verður án efa spennandi að fylgjast með í náinni framtíð. Þverfagleg vinna verður áberandi á sýningunni en þar verða verk eftir hönnuði úr öllum geirum hönnunar.
Mygluprentari
Næst er ferðinni heitið á Lækjartorg. Ásinn kemur okkur hratt og örugglega á leiðarenda. Í skemmtilegu gróðurhúsi Borgarinnar á torginu hafa 3 hönnuðir komið sér fyrir á hátíðinni. Frá upphafi hefur HönnunarMars veitt innsýn í öll stig hönnunarferlisins. Allt frá hugmynd, eða jafnvel vísi að hugmynd, til fullmótaðrar vöru eða byggingar.
Á Lækjartorgi á sér stað rannsókn á lífrænni prentun. Er hægt að prenta með myglusvepp? Hvað gerist að prentun lokinni, stækkar prentverkið og breytist?
Ekta HönnunarMars-viðburður sem býður okkur velkomin í nýtt rými og kynnir okkur nýja hugmynd. Kannski breytir hún heiminum, kannski ekki.
Rennsli
Við stefnum upp á Skólavörðuholt. Á leiðinni þangað stöldrum við á Skólavörðustíg og upplifum mjög týpískan en spennandi HönnunarMars-viðburð. Í gluggum Rammagerðarinnar verður keramikrenniverkstæði þar sem lærðir keramikhönnuðir bjóða öðrum hönnuðum upp í dans við rennibekkinn. Án efa myndræn og skemmtileg innsetning.
Hlutverk
Ásmundarsalur við Freyjugötu hefur frá endurnýjun skipað sér fastan sess í dagskrá HönnunarMars. Félag vöruhönnuða efnir til áhugaverðrar sýningar undir nafninu Hlutverk. Þar er hlutum sem hafa misst hlutverk sitt fundið nýtt. Í aðdraganda sýningarinnar hafa þeir 14 hönnuðir og teymi sem taka þátt skipst á að dvelja í Gryfjunni og þannig unnið fyrir opnum tjöldum.
Sýningin er líka uppboð. Ég hef náð að fylgjast aðeins með Instagram-reikningi vöruhönnuða og sýnist stefna í áhugaverðar niðurstöður.
Skemmtilegt tilviljun að í Ásmundarsal er einnig að finna kaffihús Reykjavík Roasters. Nú veit ég ekki hverjir siðir ykkar og venjur eru en hafi einhverjir neitað sér um einn hélaðan af krananum í Gerðarsafni er engin ástæða til að neita sér um glas af köldu hvítvíni í Ásmundarsal.
Ástarbréf til Sigvalda Thordarsonar
Myndlistarmaðurinn Loji Höskuldsson byrjaði fyrir nokkrum árum að mynda hús Vopnfirska arkitektsins Sigvalda Thordarsonar. Myndirnar hefur hann birt á Instagram-reikningi sínum sem hefur jafnt og þétt safnað fylgjendum. Það kom Loja á óvart hversu mikillar athygli og aðdáunar húsin og verkefnið hans naut og því hefur það undið upp á sig. Á HönnunarMars kemur út bók með myndum hans og laugardaginn 23. maí er efnt til rútuferðar með leiðsögn.
Við bókum okkur sæti í leiðsöguferðinni sem leggur upp frá Ásmundarsal kl. 14:00.
Hönnun í anda Ásmundar
Það er ekki ólíkegt að stemmingin sé góð í rútuferðinni með Loja Höskuldssyni og mögulega hægt að fá að hoppa úr við Ásmundarsafn við Sigtún. Ef ekki má grípa sér hlaupahjól og hendast á spennandi sýningu í Ásmundarsafni. Þar hefur Listasafn Reykjavíkur falið leiðandi íslenskum vöruhönnuðum að hanna muni í anda myndhöggvarans Ásmundar Sveinssonar. Ásmundarsafn er staður sem margir koma of sjaldan í og því rakið tækifæri að drífa sig á HönnunarMars.
Eftir heimsókn í Ásmundarsafn er komið að því að finna sér góðan stað fyrir drykk og smá hvíld áður en haldið er á síðasta viðburð dagsins á HönnunarMars.
Arfisti – gjörnýting skógarkerfils
Síendurtekið pop-up eldhús Sono matselja í Norræna húsinu er kærkomin viðbót í veitingastaðafjóru borgarinnar. Matstofa Alvars Aalto í Norræna húsinu er enda einn fallegasti útsýnisstaður Reykjavíkur. Arfisti leggur matseljunum lið á HönnunarMars en á matseðli helgarinnar eru réttir sem innihalda skógarkerfil. Hér ætla ég að enda opinbera dagskrá mína á þessum laugardegi í HönnunarMars. Minni gesti á að það er öruggara að panta borð.