Félag íslenskra teiknara
Tilgangur Félags íslenskra teiknara er að gæta hagsmuna teiknara á sviði grafískrar hönnunar, auglýsinga- og myndskreytinga. Félaginu er ætlað að efla og styrkja atvinnugreinina með faglegri fræðslu, sýningum o.fl. Félagið veitir félagsmönnum sínum aðstoð við fagleg og lögfræðileg atriði og gætir réttinda félagsmanna sinna.
Hafa samband
Fylgstu með okkur á samfélagsmiðlum
Facebook
Instagram
Stofnfélagar
- Atli Már Árnason 1918–2006
var fæddur í Reykjavík. Hann fór árið 1937 til Kaupmannahafnar í Kunsthåndværkerskolen og lauk þaðan prófi í auglýsingateiknun 1940. Að námi loknu vann hann á Auglýsingastofu KRON en stofnaði eigin auglýsingastofu 1948 ásamt Ásgeiri Júlíussyni (einnig stofnfélagi í FÍT), sem hann rak í áratugi. Atli Már kenndi fríhendisteikningu og fagteikningu bókagerðarmanna um skeið við Iðnskólann í Reykjavík. Eftir hann liggur mikið starf á sviði grafískrar hönnunar.
Atli Már fékkst frá upphafi starfsferils síns sem teiknara jafnframt við að mála. Hann sneri sér nær alfarið að listmálun tæplega fimmtugur að aldri og vann að list sinni til dauðadags.- Ágústa Pétursdóttir Snæland 1915–2008
var fyrsti Íslendingurinn til að læra auglýsingateiknun, en hún lærði í Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi árið 1936 að loknu þriggja ára námi. Hún var jafnframt fyrsta íslenska konan sem lauk prófi í faginu.
Að námi loknu sneri hún aftur til Íslands og stofnaði teiknistofu í Aðalstræti 12 ásamt Halldóri Péturssyni bróður sínum. Hún rak stofuna í nokkur ár en hóf síðan aftur að sinna faginu af alvöru á sjöunda áratugnum þegar barnauppeldishlutverkið var að baki.Á ferlinum hannaði hún fjölda merkja sem hafa greypst í vitund þjóðarinnar, t.d. merki Barnaspítala Hringsins, Listahátíðar í Reykjavík og Landsvirkjunar. Auk teiknistarfanna skapaði Ágústa listmuni af ýmsum toga, þ.á.m. eftirsótta minjagripi, kríur, svani og friðrildi í óróum sem hún vann frá grunni úr þroskhausbeinum. Hún þrykkti á tau, bæði mannlífs- og götumyndir og myndir sem voru innblásnar af náttúrunni. Síðustu tvo áratugi ævinnar tók hún að skrifa ljóð sem sum hver voru birt opinberlega.
FÍT lét koma fyrir skildi, á níunda áratug síðustu aldar, til minningar um brautryðjendahlutverk Ágústu á teiknistofu hennar að Túngötu 38 í Reykjavík, þar sem heimili hennar stóð allt frá bernsku til efri ára.
- Ásgeir Júlíusson 1915–1967
lauk gagnfræðaprófi frá M.R. 1932 og byrjaði í teikninámi hjá Birni Björnssyni. Hann fór til Danmerkur í framhaldsnám og fékk inni á Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn (reklametegning). Eftir þriggja ára nám kom hann aftur heim til Íslands og gerðist stundakennari í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands í einn vetur en kenndi síðan teiknun við gagnfræðaskólann Flensborg 1942-48. Einnig var hann teiknari bókaútgáfunnar Helgafells frá 1940.
- Halldór Pétursson 1916–1977
varð stúdent frá MR 1935 og hélt síðan til náms við Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn og lauk þaðan prófi í auglýsingateiknun 1938. Eftir það starfaði Halldór sjálfstætt hér heima við ýmiskonar teiknivinnu fram til ársins 1945 en fór á árunum 1942-45 í frekara nám við Minneapolis School of Art og Art Students League í New York. Eftir það fékkst Halldór lítið við auglýsingagerð, en stundaði aðallega myndskreytingar og skopteikningar.
- Jörundur Pálsson 1913–1993
var frá Atlastöðum í Svarfaðardalshrepp. Hann tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1935 og nam síðan auglýsingateiknun í Det Tekniske Selskab Skole, Danmörku 1935-39, auk þess sem hann stundaði málaralist við Listaháskólann í Kaupmannahöfn og tók próf í auglýsingateiknun 1938. Hann var samstíga Stefáni Jónssyni og fór í arkítektúrnám og útskrifast 1960 frá Det Kgl. Akademi for de skønne Kunster eða Kunstakademiets Arkitektskole.
- Stefán Jónsson 1914–1989
fæddist á Sauðárkróki. Hann varð stúdent frá M.A. 1935 og hélt til Kaupmannahafnar til náms í teikningu og málaralist veturinn eftir. Hann var í fullu starfi sem auglýsingateiknari í Reykjavík frá 1937 til 1956. Hann fór þó aftur í námsdvöl 1939 og þá hjá Berlingske Tidende í auglýsingateiknun. Hann fór sérstaklega til Lundúna 1953 til að kynna sér teikningu, gerð og prentun seðla og frímerkja hjá hinu víðfræga Thomas de la Rue prentfyrirtækinu. Árið 1956 hóf hann nám í arkítektúr í Kaupmannahöfn og útskrifast 1960 frá Det Kgl. Akademi for de skønne Kunster.
- Tryggvi Magnússon 1900–1960
fæddist að Bæ í Steingrímsfirði. Haustið 1916 fór hann í Gagnfræðaskólann á Akureyri og lauk þaðan prófi 1919. Hann fór því næst til Kaupmannhafnar í Teknisk Selskabskole og var þar í tvö ár, auk þess að vera eitthvað hjá aukakennurum. Hann tók svo próf upp í listaháskólann, en fór til New York í League of Art og var þar 1921-1922 við nám í andlitsteikningu. Þá lagði hann leið sína til Dresden, þar sem hann lagði stund á málaralist 1922-1923. Að loknu námi settist hann að í Reykjavík og starfaði sem teiknari.