Ríkisstjórnin samþykkir viðspyrnustyrki
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi fyrir helgi að grípa til frekari efnahagsaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins. Er þar annars vegar um að ræða tillögur að útvíkkun tekjufallsstyrkja, en frumvarp um þá er þegar til meðferðar á Alþingi, og hins vegar nýtt úrræði, viðspyrnustyrki, sem ætlað er að styðja við rekstur fyrirtækja á komandi mánuðum.
Viðspyrnustyrkir eru nýtt úrræði sem gert er ráð fyrir að verði veittir í framhaldi af tekjufallstyrkjum og fram á næsta ár. Úrræðinu er ætlað tryggja að fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónaveirufaraldursins geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.
Um viðspyrnustyrki munu gilda sambærileg skilyrði og eiga við um tekjufallsstyrki og verða þeir veittir með reglulegum greiðslum yfir a.m.k. sex mánaða tímabil eða allt fram á mitt næsta ár.
Tekjufallsstyrkir eru hugsaðir til að styðja við fyrirtæki sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins frá vori til nóvembermánaðar (1. apríl - 31. október).
Hér er hægt að lesa meira um tekjufallsstyrkina.
Þá ræddi ríkisstjórnin um mögulega framlengingu hlutabótaleiðarinnar sem rennur út nú um áramót. Hefur félags- og barnamálaráðherra þegar hafið undirbúning að framlengingu úrræðisins.