DesignTalks 2023 - Thomas Pausz, hönnuður, listamaður og rannsakandi
Thomas Pausz, hönnuður, listamaður og rannsakandi, kemur fram á DesignTalks 3. maí í Hörpu.
Getur sýndarveruleiki fyrir skordýr hjálpað okkur að framleiða mat í gróðurhúsum? Getum við notað gervigreind til þess að lesa í skeljar og skoða þannig breytingar á veðrinu? Geta ágengar plöntur verið DJar í partýjum? Thomas Pausz notar þverfaglegar aðferðir til þess að skoða hvernig samband okkar við náttúruna hefur breyst. Blönduð vistkerfi hans samanstanda af náttúrulegum, lifandi hlutum sem eiga í samtali og samstafi við tækni á óvæntan hátt. Verkefnin hans eru byggð á yfirgripsmiklum rannsóknum á landslagi og samtölum við fræðifólk á sviði loftslagsvísinda, líffræði og lífsiðfræði.
Thomas er fagstjóri meistaranáms í hönnun við Listaháskóla Íslands og er nú í forsvari fyrir nýtt meistarnám í hönnun sem nefnist, Hönnun, umhverfi og áskoranir (e. MA Design & New Environment). Næstu tvö árin einblínir námið á loftslagsbreytingar og matvælakerfin okkar og nálgast áskoranir þessa viðfangsefna þverfaglega í gegnum hönnun, miðlun og umhverfisfræði. Þessa dagana er Thomas einnig meðlimur í verkefninu Haunted Ecologies hjá Stanley Picker gallerýinu í London og er í vinnustofu við Modular Laboratory í Frakklandi. Thomas skrifar reglulega greinar um rannsóknir sínar og hefur tekið þátt í fjölda sýninga, m.a. The Swamp Pavilion á Arkitektatvíæringnum í Fenyjum, Interspecies Futures (IF) í Centre for Book Arts í New York og Species Without Spaces á Hönnunartvíæringinum í Istanbúl.
DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.