DesignTalks 2022 - Barbara
Barbara kemur fram á DesignTalks 2022, alþjóðlegu ráðstefnunni og lykilviðburði HönnunarMars, sem varpar ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr getur tekið þátt í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga.
„Barbara - saga af umbreytingu“ er hönnunarskáldsaga sem gerist í náinni framtíð. Sagan er byggð á samnefndri smásögu eftir Garðar Eyjólfsson og fjallar um fyrstu áratugina í lífi Barböru og ákveðnar breytingar sem hún gengur í gegnum. Verkefninu er ætlað að skapa vettvang fyrir samstarf ólíkra hönnuða til að skoða og rannsaka sameiginlega möguleika manneskjunnar, náttúrunnar, menningar og tækni. Brot úr þýðingu bókarinnar munu skjóta upp kollinum hér og þar í (ó)fyrirsjáanlegri framtíðinni í ólíkum útgáfum og á ólíkum miðlum. Á HönnunarMars 2022 verður Barbara kynnt með grafískri skáldsögu í bland við frásögn og tónverk. Höfundur texta og tónlistar er Garðar Eyjólfsson og höfundur teikningar er Janosch Bela Kratz.
Garðar Eyjólfsson útskrifaðist með BA gráðu í vöruhönnun frá Central Saint Martins háskólanum í London og MA gráðu í samhengisfræðilegri hönnun frá Design Academy Eindhoven. Garðar blandar saman samhengi, efnis- og frásagnarrannsóknum í verkum sínum sem leið til að kanna og þýða tíðarandann. Hann leggur áherslu á nýtingu ólíkra leiða til að miðla hugmyndum sínum en meðal þeirra eru hlutir, rými, vangaveltur, vídeó, gjörningar, tal og skrif. Garðar var fagstjóri BA náms í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands frá 2012 til 2017 og fagstjóri alþjóðlegs meistaranáms í hönnun við sama skóla frá 2017 til 2020. Auk þess hefur hann verið gestakennari og fyrirlesari í háskólum víða um heim. Samhliða akademískum störfum hefur hann unnið að sínum eigin verkefnum, sem hafa m.a. verið að þróa eigin verk, sýningarstjórnun og veita ráðgjöf á opinberum vettvangi og í einkageiranum. Garðar hefur einnig verið virkur í opinberum umræðum með skrifum, fyrirlestrum og viðtölum.
Janosch Bela Kratz er upplýsingahönnuður frá Þýskalandi. Hann er með meistaragráðu í hönnun frá Listaháskóla Íslands og er að ljúka námi af upplýsingahönnunarbraut í University of Arts í Karlsruhe í Þýskalandi. Í verkum sínum veltir hann fyrir sér hvernig við lesum og skiljum veröldina. Janosch vinnur aðallega með tilbúin heim þar sem hann veltur upp mögulegri framtíð okkar sem byggð er á rannsóknum hans á því hvernig menninga hefur þróast og breyst í gegnum árin. Hann vinnur með vídeó, gjörninga, hreyfimyndir, teikningar, vefhönnun, grafíska hönnun, skrif, búningahönnun og hluti. Hann vinnur innan post-human feminisma, samböndum á milli dýrategunda, samskipti án aðgreiningar, hið nálæga og hið fjarlæga og ofurskáldskaps.
DesignTalks 2022 snýr aftur á dagskrá þann 4. maí í Silfurbergi í Hörpu og stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir og kynnir verður Marcus Fairs, ritstjóri og stofnandi ein virtasta hönnunarmiðils í heimi í dag, Dezeen, sem tengir samtalið alþjóðlegu samhengi og dregur fram mikilvægi þess fyrir breiðari hóp.
Dagskrá dagsins verður ferðalag um fornar aðferðir, seiglu, handverk og frumbyggja visku, um tilraunir til endurhugsunar núverandi kerfa, viðbragð við krísuástandi, hönnun upplýsinga, tækni og gagnalæsi yfir í útvíkkaða raunveruleika og spáhönnun sem dregur upp framtíðarmyndir til að spegla og rýna samtímann.
„Þetta verður hátíð ímyndunaraflsins - og stund íhugunar.”
- Hlín Helga, stjórnandi DesignTalks.
Búið er tilkynna þau Susanne Vos, stafrænan fatahönnuð, Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt, Gabriela Sánchez y Sánchez de la Barquera, sköpunarstjóra, Aamu Song og Johan Olin, listamenn og hönnuði hjá Company, Anders Lendager, arkitekt, framkvæmdastjóra og stofnanda Lendager Group, Liam Young, leikstjóra og sci-fi arkitekt, Giorgiu Lupi, upplýsingahönnuð og partner hjá Pentagram, Stefán Laxness, arkitekt og fræðimann og Valdís Steinarsdóttir, hönnuð.
Það stefnir í fjölbreyttan dag í Hörpu þann 4. maí - fylgstu með hér er við tilkynnum hverjir fleiri koma fram á DesignTalks 2022.
DesignTalks er lykilviðburður HönnunarMars hátíðarinnar sem í ár breiðir úr sér um höfuðborgarsvæðið dagana 4. - 8. maí!