DesignTalks 2024 - þar sem kaos er norm og jafnvægi list - dagskrá dagsins
DesignTalks, lykilviðburður og alþjóðleg ráðstefna HönnunarMars, býður gesti velkomna í sirkusinn miðvikudaginn 24. apríl!
Í tælandi töfraheimi sirkusins ríkir gleði, fegurð og hugrekki. Allt er mögulegt og hringurinn er nýttur til að halda hugmyndum á lofti, spúa eldfimri snilld og fljúga hátt. En undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum hið óþægilega. Þannig speglar sirkusinn ástand heims í jafnvægi og ójafnvægi, en í sveiflunni á milli öfganna er fegurðina að finna! Í óreiðunni er stöðug hreyfing, sem skapar svigrúm fyrir uppgötvanir, hugmyndir og þekkingu. Nýjar leiðir til að dansa á línunni og ná jafnvægi.
Í dagskrá DesignTalks er fjallað um áskoranir samtímans af framúrskarandi fyrirlesurum, sem koma víðsvegar að og nota þekkingu sína til að leita lausna. Fjallað verður um hönnun sem stuðlar að jafnrétti og virðingu, hönnun sem snýst um fegurð og framþróun, hönnun sem brýtur niður staðalmyndir og spornar gegn fordómum, hönnun sem leitar tækifæra í efnisnotkun og vönduðum rýmum sem ramma inn gott samfélag. Í fyrirlestrunum birtist fegurð og myndræn frásagnarlist, framúrskarandi verk sem veita innblástur til góðra verka, skapandi hugsunar og nýrrar nálgunar sem valdeflir ofurkraftinn sem felst í sjálfri sköpunargáfunni.
I 9:00 - 10:40
Tölum um virðingu og vandvirkni
Að hanna af reisn, fyrir jafnrétti og jarðtengingu.
Arkitektinn Alan Ricks er einn af stofnendum og framkvæmdastjórum MASS Design Group, sem leggja megináherslu á hlutverk arkitektúrs í því að hanna gott, réttlátt og mannvænt samfélag. MASS teymið telur að arkitektúr hafi mikilvægu hlutverki að gegna í samfélögum til að nýta söguna, endurhugsa, heila og varpa ljósi á nýja möguleika fyrir framtíðina. Alan leggur sjálfur áherslu á að rannsaka, byggja og kynna arkitektúr sem stuðlar að réttlæti og virðingu. Lonny van Ryswyck, helmingur hönnunartvíeykisins Atelier NL vinnur með hönnun sem tæki til að tengja samfélög við verðmæti í nærumhverfi sín og þannig vekja athygli á og styrkja sambandið við efnivið jarðar.
II 11:00 - 12:30
Tölum um fegurð og framþróun
Hönnun sem finnur lausnir á skorti og ofgnótt, byggir brýr og ýtir undir betra líf.
Robert Thiemann, innanhússarkitekt, stofnandi og ritstjóri FRAME tímaritsins og stofnandi ráðgjafastofunnar BETTERNESS, hefur ástríðu fyrir hinu byggða umhverfi og hvernig hægt er að hanna af virðingu fyrir náttúru en um leið tryggja að fólk blómstri. Hönnunarstúdíóið Flétta vinnur að fjölbreyttum verkefnum þar sem endurnýting hráefna og staðbundin framleiðsla spila lykilhlutverk. Á yfirborðinu einkennast verk þeirra af leikgleði og léttleika en undir niðri krauma gagnrýnar spurningar. Listræni stjórnandinn Lisa Lapauw og ljósmyndarinn Mous Lambrat skapa verk sem ögra staðalímyndum og fordómum. Listræn nálgun þeirra tengir saman hönnun og tísku sem ber virðingu fyrir arfleifð og sækir innblástur í minningar.
III 13:30 - 15:00
Tölum um tilfinningar og töfraheima
Að hanna hreyfingu, breytingu og aðrar víddir
Sigríður Soffía Níelsdóttir, kóreógraf, rithöfundur og leikskáld kannar hreyfingu í ólíkum formum og fjölbreyttum miðlum og hannar flugelda og flóru. Rithöfundurinn og Hrund Gunnsteinsdóttir leiðtogi sjálfbærni og höfundur talar fyrir innsæi. Hún telur að leiðin til bjartari tíma liggi í því að mannfólk nái aftur sterkri tengingu við náttúruna, aðrar lífverur og jörðina. Ervin Latimer er prent- og fatahönnuður, stofnandi vörumerkisins Latimmier heldur fjallar um tísku, hinsegin menningu og kynþáttafordóma. James Merry er frægur fyrir útsaum og hönnun einstakra andlitsgríma. Hann hefur átt í löngu samstarfi við söngkonuna Björk og haft verulega áhrif á myndheim hennar. Innsýn í verk hans er ferðalag sem grípur hugann og leiðir áhorfandann yfir í hið yfirskilvitlega.
IV 15:20 - 16:30
Tölum um að taka sig ekki of alvarlega
Hönnun sem snertir við okkur og skapar nýja þekkingu
Rán Flygenring sinnir frásagnarlist, myndskreytingum og ritstörfum. Hún fékk barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023. Dagskránni lýkur með Harry Parr frá Bompas & Parr, hönnunarstofu sem er leiðandi á sviði upplifunarhönnunar, sérsaklega fjölskynjunar upplifun, enda kalla þeir sig „Architects of taste; feeding minds and stomachs”. Stofan var stofnuð af Harry Parr og Sam Bompas, sem eru stundum kallaðir „töframennirnir” í London og halda stöðugt áfram að koma á óvart og þenja ímyndunaraflið. Heillandi birtingamyndir sköpunargleðinnar sem hreyfa við öllum skynfærum.