Árið 2021 í hönnun og arkitektúr
Þá er árinu 2021 að ljúka. Ári sem hefur haft sínar hæðir og lægðir, samkomutakmarkanir, sóttvarnir og afléttingar í bland. Þrátt fyrir furðulegt ár hefur allskonar áhugavert átt sér stað þegar kemur að hönnun og arkitektúr sem við rifjum upp hér.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í Grósku
Miðstöðin flutti skrifstofu sína á fyrstu hæð í Grósku, Bjargargötu 1 í upphafi árs 2021. Miðstöðin deilir skrifstofu með Arkitektafélagi Íslands á fyrstu hæð hússins.
Nýtt stjórnarfyrirkomulag
Ný stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs tók til starfa á árinu en hana skipa Kristján Örn Kjartansson, arkitekt formaður stjórnar, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, innanhússarkitekt varaformaður, Þórunn Hannesdóttir vöruhönnuður, Andri Snær Magnason, rithöfundur og Helga Valfells, fjárfestir og eigandi Crowberry Capital.
Á aðalfundi Miðstöðvarinnar í Grósku í júní var samþykktum breytt þannig að fimm manna stjórn tekur við af níu manna stjórn félagsins. Hún er skipuð þremur fulltrúum félaganna sem eiga og reka Miðstöðina ásamt tveim fulltrúum úr atvinnulífi. Markmið breytinganna er að auka breidd og styrkja stjórnina og um leið efla tengsl við atvinnulíf og stjórnvöld í rekstri Miðstöðvarinnar.
Stofnaður var hluthafahópur skipaður einum fulltrúa frá hverju félagi. Hlutverk hans er að taka þátt að móta stefnu og vinna að faglegum markmið Miðstöðvarinnar ásamt því að hvetja til umræðu, fræðslu og viðburða.
Framtíð sem byggir á hönnun, hugviti og nýsköpun
Í sumar fór fram stefnumót hönnuða og arkitekta þar sem markmiðið var að skerpa fókus, skilgreina helstu áherslusvið og móta markvissar tillögur um aðgerðir til að kynna fyrir stjórnmálafólki vegna kosninga til Alþingis. Samhljómur var um áherslurnar og að Ísland eigi mikinn og vaxandi mannauð með mikla þekkingu og reynslu sem má virkja betur.
Tveir opnir vinnufundir fóru fram í Grósku, undir stjórn Hlínar Helgu Guðlaugsdóttur þar sem fjölmennur hópur úr ólíkum greinum hönnunar og arkitektúrs, atvinnulífi, háskólaumhverfi og stjórnsýslu kom saman til að eiga samtal um markmið og aðgerðir til að efla hönnun og arkitektúr á Íslandi.
Í aðdraganda kosninga fóru svo í loftið greinar á Vísi og á heimasíðu Miðstöðvarinnar ásamt skilaboðum á samfélagsmiðlum sem öll tóku mið af stefnumótuninni þar sem athygli var beint að mikilvægi hönnunar og arkitektúrs til búa hér til sjálfbært samfélag byggt á hönnun, hugviti og nýsköpun.
HönnunarMars í maí
HönnunarMars hátíðin var ein af fáum hátíðum sem fór fram með raunverulegum hætti árið 2021 en hátíðin breiddi úr sér dagana 19 - 23. maí - þrátt fyrir samkomutakmarkanir og sóttvarnarreglur. Á dagskrá hátíðarinnar voru 87 sýningum og þátttakendur voru á bilinu 400-600 talsins.
Dagskrárliðir spönnuðu breitt svið hönnunar og voru allt frá einkasýningum, samsýningum og nemasýningum til ýmiss konar viðburða; s.s. tískusýning, uppboð, hönnunargöngur, vinnusmiðjur, leiðsagnir, verðlaunaafhendingar og þannig má lengi telja. Sýningar dreifðust yfir höfuðborgarsvæðið; frá Seltjarnarnesi, í gegnum Hafnartorg og miðbæinn yfir í Skeifuna, upp á Höfða, í Kópavog, Garðabæ og til Elliðaárstöðvar, þótt mest hafi verið um að vera í miðborg Reykjavíkur eins og fyrri ár.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun voru þátttakendum hugleikið viðfangsefni í ár og veittu gestum innblástur inn í nýja tíma.
Hátíðin 2021 skilur eftir sig allskonar rafrænt efni sem veitir innsýn inn í hönnunarsenuna hér á landi sem kjörið er að rifja upp. Stuttmyndin Why not? Designing the spirit of Iceland sem Icelandair gerði í samstarfi við hátiðina. Horfðu hér.
DesignTalks talks - hlaðvarp um hönnun fór í loftið samhliða hátíðinni í ár þar sem Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi lykilviðburðar HönnunarMars DesignTalks ráðstefnunnar, fjallaði um hönnun og arkitektúr í allkyns samhengi með frábærum gestum. Þættirnir eru aðgengilegir hér.
HönnunarMars á Norðurlöndunum var einnig tilraunaverkefni sem hátíðin gerði í samstarfi við sendiráð Íslands á Norðurlöndunum. Hlaðvörp sem leiddu saman hönnuði frá Íslandi og Norrænu höfuðborganna í áhugavert samtal um hönnun og arkitektúr. Hlustaðu hér.
Vegna mikillar ánægju með tímasetningu hátíðarinnar meðal gesta og þátttakenda mun HönnunarMars 2022 einnig fara með hækkandi sól fyrstu helgina í maí - 4 - 8. maí. Taktu dagana frá!
Hönnunarsjóður 2021
Á árinu 2021 bárust sjóðnum samtals 232 umsóknir um almenna styrki að upphæð 463 m. kr. Sjóðurinn veitti alls 39 verkefnum styrki að upphæð 43,5 m. kr og 22 ferðastyrki.
Fyrri úthlutun
Seinni úthlutun
Haldinn var ráðgjafardagur í samstarfi við Icelandic Startups í Grósku þann 11. nóvember. Fulltrúar 17 verkefna sem hlutu styrk á árinu tóku þátt í deginum, sem innihélt bæði fyrirlestra og mentora fundi. Almenn ánægja var með daginn.
Búið er að opna fyrir umsóknir í fyrri úthlutun ársins 2022 hjá Hönnunarsjóði. Umsóknarfrestur til 10. febrúar.
Hönnunarverðlaun Íslands 2021
Verðlaunaafhending og málþing tengt verðlaununum fór fram í Grósku þann 29. október. Kynnir kvöldsins var Guðrún Sóley Gestsdóttir, fjölmiðlakona en fyrr um daginn fór fram samtal um framtíð byggða á hönnun, hugviti og nýsköpun undir stjórn Hrundar Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóri Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni ásamt líflegum pallborðsumræðum þar sem sátu Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Í ár voru fimm framúrskarandi verkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs tilnefnd: made in reykjavík eftir Magneu Einarsdóttur, Hjaltalín - ∞“ eftir grafíska hönnuðinn Sigurð Oddsson, myndhöggvarann Matthías Rúnar Sigurðsson og þrívíddarhönnuðinn Gabríel Benedikt Bachmann, Söluhús við Ægisgarð eftir Yrki arkitekta, Konur sem kjósa eftir Snæfríði Þorsteins, Hildigunni Gunnarsdóttur og Agnar Frey Stefánsson og hönnunarverkefnið Þykjó eftir hönnuðina Sigríði Sunnu Reynisdóttur, Ninnu Þórarinsdóttur, Sigurbjörgu Stefánsdóttir og Erlu Ólafsdóttur.
Viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2021 hlaut fyrirtækið CCP Games.
Í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2021 sátu:
María Kristín Jónsdóttir/Sigríður Sigurjónsdóttir, formenn, Hönnunarsafn Íslands
Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, LHÍ
Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður MH&A
Margrét Kristín Sigurðardóttir, SI
Katarina Siltavuori, framkvæmdastjóri Archinfo í Finnlandi. MH&A
Ragna Fróðadóttir, textíl- og fatahönnuður, og framkvæmdastjóri Edelkoort Inc. MH&A
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands,Listaháskóla Íslands,Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.
Góðar leiðir.is í loftið
Vefurinn Góðar leiðir fór í loftið á árinu en þar má meðal annars finna Vegrúnu, merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði. Vegrún er merkinga- og leiðakerfi sem er opið öllum til notkunar. Það er sérstaklega hannað til að falla að náttúru Íslands. Kerfið er hannað af Kolofon.
Vegrún
Á síðunni má einnig finna Náttúrustíga - Leiðbeiningar um gerð náttúrustíga. Vel gerðir göngustígar og reglulegt viðhald gönguleiða gegna lykilhlutverki við að verja landið fyrir skemmdum og stuðla að sjálfbærri ferðamennsku.
Náttúrustígar
Góðar leiðir er bræðingur verkefna á sviði innviðahönnunar ferðamannastaða sem byggir á víðtæku samtali milli stofnana, sveitarfélaga, fagfólks og ferðaþjónustuaðila. Verkefnið felur í sér kortlagningu, stefnumótun og þróun hönnunarferla við uppbyggingu, innleiðingu og viðhald innviða, með það að markmiði að vernda viðkvæma náttúru og greiða aðgengi að sterkri náttúrupplifun.
Fegurð, virðing og öryggi eru leiðarstef Góðra leiða sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs vinnur í samstarfi við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Samtök skapandi greina blésu til sóknar
Samtök skapandi greina eru breiður samráðsvettvangur, sem ætlað er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og standa vörð um þessar greinar á Íslandi. Er þar átt við listir, sköpun, hugverk og menningu, sem og atvinnu- og viðskiptalíf sem af þeim skapast.
Ný stjórn Samtaka skapandi greina var kosin á aðalfundi samtakanna í Grósku 7. september síðastliðinn. Hana skipa Auður Jörundsdóttir, Bragi Valdimar Skúlason, Birna Hafstein, Sigtryggur Baldursson og Halla Helgadóttir, sem var kosin formaður stjórnar. Stofnfélagar Samtaka skapandi greina eru Samtónn, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Sviðlistasamband Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Tónverkamiðstöð, Útón, Samtök leikjaframleiðenda og Miðstöð íslenskra bókmennta.
Íslenskur arkitektúr vekur athygli á heimsvísu
Íslenskur arkitektúr vakti athygli út fyrir landsteinana á árinu en verkefni íslenskra arkitekta lentu á topplistum virta hönnunarmiðla út um allan heim.
Verkefnin sem um ræðir eiga það sameiginlegt að vera gerð í sátt við umhverfið og náttúruna, boða nýja nálgun í notkun hráefna, sköpunar og með fjölbreytt notkunargildi.
Hér má sjá umfjallanir um verkefnin sem um ræðir.
Fimm íslensk verk verðlaunuð í alþjóðlegu ADCE verðlaununum
Fimm verðlaun fóru til íslenskra verka á hinum alþjóðlegu ADCE verðlunum sem verðlauna það besta í grafískri hönnun á árinu. Íslendingar sendu inn 13 verk í keppnina en fimm verk hlutu verðlaun, tvö gullverðlaun, tvö silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.
Þau íslensku verk sem hlutu verðlaun voru:
- Room 4.1 LIVE — Craft Picture, gold og Digital Screens, Silver. Brandenburg
- Konur sem kjósa — Aldarsaga — Editorial design, gold. Hönnuðir: Hildigunnur Gunnarsdóttir og Snæfríð Þorsteins
- Allir úr — TV/Cinema Commerical, Silver. Brandenburg.
- Íslenska landsliðið í knattspyrnu — Logotype, Bronze. Brandenburg.
Bækur um hönnun og arkitektúr
Margar forvitnilegar bækur um íslenska hönnun og arkitektúr komu út á árinu
Hér má lesa umfjallanir
Straumar frá Bretlandseyjum - Rætur íslenskrar byggingarlistar
Þetta er íslensk hönnun
Eyjólfur Pálsson, gjarna kenndur við Epal, stóð á bak við einstakt átak sem fór í loftið í október ætlað er að gera fjölbreytileika íslenskrar hönnunar sýnilegar með auglýsingum á umhverfismiðlum um allt höfuðborgarsvæðið.
„Íslensk hönnun fær ekki alltaf þá athygli og virðingu sem hún verðskuldar og hef ég í gegnum tíðina reynt ýmsar leiðir til að koma henni betur á framfæri. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við öll, sem seljum, hönnum, framleiðum eða einfaldlega elskum íslenska hönnun, tökum höndum saman til að styðja við þessa mikilvægu iðngrein. “