DesignTalks 2023 - Liam Young, sci-fi arkitekt og leikstjóri
Liam Young, sci-fi arkitekt, leikstjóri og framleiðandi, kemur fram á DesignTalks 2023 í Hörpu miðvikudaginn 3. maí. DesignTalks ráðstefnan hefur öðlast fastan sess hérlendis og er vel þekkt alþjóðlega sem mikilvægur vettvangur innblásturs og samtals um helstu þróun og breytingar sem drifnar eru áfram með aðferðum hönnunar og arkitektúrs.
Liam Young vinnur á mörkum hönnunar, skáldskapar og framtíðarrýni. Hann er þekktur fyrir að skapa heimsmyndir, borgir og rými ímyndaðrar framtíðar, bæði fyrir sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn. BBC lýsir honum sem „manninum sem hannar framtíð okkar“ en framsýnar kvikmyndir hans og hliðarheimar varpa ljósi á óvenjulega framtíðarsýn og fjalla með gagnrýnum hætti um hin brýnu umhverfismálefni sem brenna á heiminum í dag.
Young kom fram á DesignTalks 2022 með rafrænum hætti en í þetta sinn mætir hann á sviðið í Silfurbergi í Hörpu.
Young hefur verið leiðandi á sínu sviði og haft mikil áhrif á nýjar kynslóðir arkitekta. Kvikmyndir hans hafa verið sýndar á Channel 4, Apple+, SxSW, Tribeca, New York Metropolitan Museum, The Royal Academy, Feneyjatvíæringnum, BBC og Guardian. Myndir hans má finna í söfnum á borð við the New York Met, Art Institute of Chicago, the Victoria and Albert Museum, the National Gallery of Victoria og M Plus Hong Kong, og sömuleiðis hlotið lof og miðlun á vettvangi á borð við TED, Wired, New Scientist, Arte, Canal+, Time magazine og margt fleira.
DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
„Auðmýkt. Enginn veit allt en saman vitum við margt.”
- Hlín Helga Guðlaugsdóttir, listrænn stjórnandi DesignTalks
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.