DesignTalks 2022 - Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi FÓLK, og Tor Inge Hjemdal, framkvæmdastjóri DOGA
Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi FÓLK, og Tor Inge Hjemdal, framkvæmdarstjóri DOGA, flytja sitt hvort erindið á DesignTalks 2022, alþjóðlegu ráðstefnunni og lykilviðburði HönnunarMars, sem varpar ljósi á hvernig hönnun og arkitektúr getur tekið þátt í uppbyggingu og framþróun og verið hreyfiafl breytinga.
Ragna Sara Jónsdóttir er stofnandi og listrænn stjórnandi FÓLK Reykjavík. Hún stofnaði FÓLK með það að markmiði að ýta undir hönnun og framleiðslu sem styður sjálfbærni og hringrás hráefna auk þess að vera stökkpallur fyrir íslenska hönnuði á erlendri grundu. Eftir að útskrifast með MSc gráðu í alþjóðaviðskiptum og tungumálum frá Copenhagen Business School stofnaði hún ráðgjafafyrirtæki með áherslu á samfélagsábyrgð og sjálfbærni og starfaði fyrir viðskiptavini á borð við Utanríkisráðuneytið, Þróunaráætlun Sameinuðu Þjóðanna og Íslandsbanka. Ragna hefur einnig starfað sem yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar og síðar yfirmaður samfélagsábyrgðar Landsvirkjunar. Ragna Sara hefur látið umhverfis- og mannréttindamál sig varða en hún var m.a. formaður stjórnar UN Women á Íslandi og er formaður dómnefndar Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.
Tor Inge Hjemdal er framkvæmdastjóri DOGA, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í Noregi. Tor er menntaður arkitekt en er einnig með menntun í borgarmálum og nýsköpun frá Haas Business School í Berkley. Síðustu 15 ár hefur Tor sinnt ýmsum stjórnunarstörfum bæði innan opinberra stofnanna og einkafyrirtækja, auk þess að vera yfirmaður nýsköpunarfyrirtækis.
DesignTalks 2022 snýr aftur á dagskrá þann 4. maí í Silfurbergi í Hörpu og stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir og kynnir verður Marcus Fairs, ritstjóri og stofnandi ein virtasta hönnunarmiðils í heimi í dag, Dezeen, sem tengir samtalið alþjóðlegu samhengi og dregur fram mikilvægi þess fyrir breiðari hóp.
Dagskrá dagsins verður ferðalag um fornar aðferðir, seiglu, handverk og frumbyggja visku, um tilraunir til endurhugsunar núverandi kerfa, viðbragð við krísuástandi, hönnun upplýsinga, tækni og gagnalæsi yfir í útvíkkaða raunveruleika og spáhönnun sem dregur upp framtíðarmyndir til að spegla og rýna samtímann.
„Þetta verður hátíð ímyndunaraflsins - og stund íhugunar.”
- Hlín Helga, stjórnandi DesignTalks.
Búið er tilkynna þau Gunnar Vilhjálmsson og Kalapi Gajjar, stofnendur Universal Thirst, Barbara, hönnunarskáldsaga, Susanne Vos, stafrænan fatahönnuð, Arnhildi Pálmadóttur, arkitekt, Gabriela Sánchez y Sánchez de la Barquera, sköpunarstjóra, Aamu Song og Johan Olin, listamenn og hönnuði hjá Company, Anders Lendager, arkitekt, framkvæmdastjóra og stofnanda Lendager Group, Liam Young, leikstjóra og sci-fi arkitekt, Giorgiu Lupi, upplýsingahönnuð og partner hjá Pentagram, Stefán Laxness, arkitekt og fræðimann og Valdís Steinarsdóttir, hönnuð.
Það stefnir í fjölbreyttan dag í Hörpu þann 4. maí - fylgstu með hér er við tilkynnum hverjir fleiri koma fram á DesignTalks 2022.
DesignTalks er lykilviðburður HönnunarMars hátíðarinnar sem í ár breiðir úr sér um höfuðborgarsvæðið dagana 4. - 8. maí!