DesignTalks 2023 - Lee Baker frá Graphic Rewilding, listamaður og tónskáld
Lee Baker frá Graphic Rewilding, listamaður og tónskáld, kemur fram á DesignTalks 2023 í Hörpu miðvikudaginn 3. maí. DesignTalks ráðstefnan hefur öðlast fastan sess hérlendis og er vel þekkt alþjóðlega sem mikilvægur vettvangur innblásturs og samtals um helstu þróun og breytingar sem drifnar eru áfram með aðferðum hönnunar og arkitektúrs.
Graphic Rewilding býr til stórar innsetningar, innblásnar af náttúrunni, í borgarrýmum sem alla jafna er litið fram hjá. Þó að þær veiti ekki sama ávinning og það að vera í náttúrunni, þá hefur verið sannað að myndir af náttúrunni geta haft jákvæð áhrif á þau sem eyða litlum tíma í grænum rýmum og hvatt fólk til þess að tengjast náttúrunni og hafa samúð með henni
Lee Baker, listamaður og tónskáld, er best þekktur sem helmingur skapandi dúósins Baker & Borowski sem stendur m.a. á bak við hið ögrandi verkefni Graphic Rewilding.
Verk Graphic Rewilding byggja á reynslu Bakers að alast upp í borg og tengjast náttúrunni einungis í gegnum list, sjónvarp og aðra gagnvirka vetttvanga. Litríkir og áberandi blómaveggir Graphic Rewilding brúa bil á milli stafrænnar sköpunar og hefðbundinnar listar. Verkin eru epískar innsetningar í borgarumhverfi sem er ætlað að hvetja fólk til að tengjast náttúrunni, hvert öðru og samfélaginu þvert á stéttarskiptingu og kynslóðabil. Listaverkin eru unnin sem abstrakt kyrralífsverk. Þau minna á skógargöngu eða engi af villtum blómum og mynda sjónræna tengingu á milli borgarlandslags og náttúru.
Graphic Rewilding byggir á velgengni Baker með SKIP gallerýinu. SKIP, sem stofnað var í London árið 2016, er sýningarvettvangur fyrir rótgróna sem og upprennandi listamenn. Gallerýið hefur það að markmiði að ná til sem flestra og gera þannig list aðgengilega öllum.
DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
„Auðmýkt. Enginn veit allt en saman vitum við margt.”
- Hlín Helga Guðlaugsdóttir, listrænn stjórnandi DesignTalks
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.