DesignTalks 2023 - Kjartan Örn Ólafsson
Kjartan Örn Ólafsson, loftslagsfrumkvöðull, kemur fram á DesignTalks 2023 í Hörpu miðvikudaginn 3. maí.
Ég hef stundum lýst okkur hjá Transition Labs sem einhvers konar ljósmóður fyrir loftslagsiðnað framtíðarinnar. Við þróum ekki okkar eigin loftslagslausnir heldur leggjum áherslu á að aðstoða aðra loftslagsfrumkvöðla við að fæða sín verkefni inn í heiminn; hratt og örugglega, og fjarlægja hindranir sem geta verið til staðar
Kjartan Örn Ólafsson er framkvæmdastjóri loftslagsfyrirtækisins Transition Labs ehf. Félagið starfar með sumum af metnaðarfyllstu loftslagsverkefnum heims og aðstoðar við að koma þeim á legg, þroska þau og skala upp á Íslandi hratt og örugglega með það fyrir augum að skapa fyrirmynd að frekari skölun víða um heim.
Kjartan hefur stofnað og rekið eigin nýsköpunarfyrirtæki bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum, og komið að uppbyggingu annarra sem stjórnarmaður, fjárfestir og ráðgjafi. Hann var framkvæmdastjóri viðskiptaþróunarfélagsins Volta og um skeið fjárfestingastjóri hjá vísisjóðnum Brunni Ventures.
Áður starfaði Kjartan um árabil sem framkvæmdastjóri á viðskiptaþróunarsviði fjölmiðlasamsteypunnar Bertelsmann í New York og leiddi nýsköpunarverkefni fyrir ýmis dótturfyrirtæki hennar, svo sem Random House, SonyBMG Music og Fremantle, sem öll eru leiðandi á heimsvísu á sínu sviði.
Utan viðskiptalífsins hefur Kjartan setið í stjórnum fjölmargra samtaka og stofnana svo sem American-Scandinavian Foundation og Hörpu tónlistarhúss, og verið stjórnarformaður Listahátíðar í Reykjavík og UNICEF á Íslandi. Kjartan lærði heimspeki og rökfræði á Íslandi og Ítalíu og er með MBA-gráðu frá Harvard Business School.
DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.