Samkeppnir
AÍ býður upp á samtal án skuldbindinga vegna verkefna sem væri skynsamlegt að leysa með samkeppni. Ef áhugi er fyrir því að halda samkeppni er form hennar ákveðið, verðlaunafé/greiðslur til þátttakanda, tímalína sett upp og dómnefnd skipuð. Næst er gengið frá samningi milli verkkaupa og AÍ og fær verkkaupi staðlaða grunnsamkeppnislýsingu sem og önnur gögn.
FORM OG TILHÖGUN SAMKEPPNI
Form samkeppni er tvenns konar:
- Framkvæmdasamkeppni
Verkkaupi leitar eftir tillögu til útfærslu. - Hugmyndasamkeppni
Verkkaupi er fyrst og fremst að lýsa eftir grundvallar hugmyndum til lausnar ákveðnu viðfangsefnis, en útfærsla þarf ekki nauðsynlega að vera fyrirhuguð í framhaldi af keppni.
Tilhögun samkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands er með eftirfarandi hætti:
- Opin samkeppni
Samkeppnin er opin öllum þeim, sem uppfylla skilyrði samkeppnislýsingar. Opnar samkeppnir geta bæði verið framkvæmdasamkeppnir og hugmyndasamkeppnir. Dómnefnd fer yfir innsendingar tillögur og verðlaunar fyrstu þrjú sætin. Veita skal verðlaunatillögum peningarverðlaun. - Opin tveggja þrepa samkeppni
Fyrra þrep samkeppninnar er opið öllum þeim sem uppfylla skilyrði samkeppnislýsingar. Skilagögn í fyrra þrepi sýna grunnhugmynd og er ekki ætlast til að útfærsla sé fullunninn. Í seinna þrepi eru a.m.k. þrjár tillögur valdar til áframhaldandi keppni. Allir þátttakendur í seinna þrepa fá greitt fyrir sína vinnu. Dómnefnd fer yfir innsendingar tillögur og verðlaunar fyrstu þrjú sætin. Veita skal peningarverðlaun í hugmyndasamkeppni. Ekki er þörf á að veita peningaverðlaun í framkvæmdasamkeppnum. Tveggja þrepa samkeppnir eru almennt framkvæmdasamkeppnir. - Forvalssamkeppni
Forval er opið öllum þeim sem uppfylla skilyrði samkeppnislýsingar. Arkitektar sækja um þátttöku með umsókn. Sérstök valnefnd fer yfir umsóknir og velur amk. 3 þátttakendur samkvæmt fyrirfram skilgreindum forsendum til að vinna tillögu í samkeppni. Dómnefnd sem ekki er skipuð sömu fulltrúum og valnefnd fer yfir tillögur og velur einn verðlaunahafa. Allir valdir þátttakendur fá greitt fyrir sína vinnu. Dómnefnd fer yfir innsendingar tillögur og verðlaunar fyrstu þrjú sætin. Ekki er þörf á að veita verðlaunatillögu peningaverðlaun. Forvalssamkeppnir eru ávallt framkvæmdasamkeppnir. - Boðskeppni
Samkeppni þar sem verkkaupi velur, án aðkomu AÍ, teymi til að taka þátt í samkeppni. Valið getur t.d. farið fram með viðtölum að undanförnu umsóknarferli. Þegar verkkaupi hefur valið teymi til þátttöku, að lágmarki þrjú teymi, þá tekur við hefðbundin samkeppni með aðkomu AÍ, eins eða tveggja þrepa, með nafnleynd.
Kostnaður
Kostnaður við samkeppnir fer eftir umfangi og eðli samkeppninnar. Beinn kostnaður er verðlaunafé/þóknun til þátttakanda og þóknun til AÍ. Þóknun til AÍ innifelur m.a. í sér þóknun til dómnefndarfulltrúa á vegum AÍ, þóknun til trúnaðarmanns ef á vegum AÍ, ráðgjöf, auglýsing á samkeppni á miðlum AÍ og í netpósti til félagsmanna og umfjöllun um niðurstöðu samkeppninnar.
TÍMALENGD SAMKEPPNI
Algengur misskilningur varðandi samkeppnir er sá að þær taki of langan tíma. Samkeppni er hluti af vönduðum undirbúningi framkvæmda og getur sparað bæði fé, tíma og fyrirhöfn þegar til heildarinnar er litið. Því er óráðlegt að skera niður þann lið framkvæmdanna.
Undirbúningur: 2-3 mánuðir
Samkeppni: 3 mánuðir
Dómstörf: 1 mánuður
Frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri félagsins, Elísa Jóhannsdóttir, s. 7802228, ai@ai.is